Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:40:58 (1977)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft þörfu máli og fyllsta ástæða að taka til umræðu á vettvangi Alþingis Íslendinga í dag það böl sem fylgir atvinnuleysinu. Það hefur verið þjóðarstolt okkar Íslendinga um langt árabil að okkur hefur tekist að halda atvinnuleysisvofunni utan dyra. Þetta hefur verið grundvallaratriði í stjórnarstefnu ríkisstjórna svo lengi sem ég hef fylgst með. Það er einfaldlega svo ríkt í þjóðareðli okkar Íslendinga að við höfum tækifæri til að vinna fyrir okkur með eigin höndum. Íslendingar hafa aldrei þolað atvinnuleysi og ég er þess fullviss að þjóðin mun hrinda af höndum sér hverri þeirri ríkisstjórn sem sveigir af þeirri braut varðandi atvinnuöryggi sem hefur verið fylgt á umliðnum áratugum.
    Það hefur nokkuð verið rætt hér við hverja atvinnuleysið komi verst. Flm. nefna ákveðna hópa. Nú er það alltaf matsatriði og ég hef fullan skilning gagnvart þeim hópum sem hér eru nefndir. En ég vil þó nefna þann þjóðfélagshóp sem atvinnuleysið er líklega langsamlega sárast fyrir. Það er fólk sem komið er um og á rúmlega miðjan aldur og er farið að horfa fram á það að geta átt rólegri daga og notið frístunda með sínum ástvinum. Ég hygg að atvinnuleysið sé ekki sárara fyrir nokkurn hóp en þennan, ekki síst eins og hlutirnir hafa þróast í dag að það er miklu erfiðara fyrir þennan hóp að fá vinnu aftur en þá sem yngri eru.
    Við þessa umræðu hefur einnig verið vakin athygli á því að kerfið sem hér hefur verið byggt upp til þess að lina þeim atvinnuleysið sem fyrir því verða gerir ekki ráð fyrir viðvarandi atvinnuleysi. Það gerir eingöngu ráð fyrir því að atvinnuleysið sé tíma- eða staðbundið, eins og það hefur verið lengst af hér. Þetta er eins konar viðlagahjálp til þess að aðstoða fólk við atvinnuleysi um skamman tíma. Þetta sést m.a. af því að eftir árið detta menn út af atvinnuleysisskrá og hafa þá ekki að neinu að hverfa. Þetta er stórt gat á okkar velferðarkerfi sem annars á að byggjast upp á því að tryggja öllum framfæri.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það þjóðfélagsböl sem getur fylgt í kjölfar atvinnuleysisins. Það hafa aðrir gert hér en ég ætla að lokum að ræða eilítið um hlutverk og stöðu ríkisvalds í atvinnumálum.
    Sá sem hér stendur þóttist sjá strax í sumar að hverju stefndi og fór því fram á utandagskrárumræðu um ástandið í atvinnumálum strax á fyrstu dögum þingsins. Það var góð þátttaka í þeirri umfjöllun en það sem vakti athygli voru þau ummæli hæstv. forsrh. að allt væri á réttri leið, stefna ríkisstjórnarinnar væri að skila árangri og ef menn hefðu úthald og hvikuðu ekki frá settri stefnu mundi þetta allt saman koma af sjálfu sér á næstu mánuðum.
    Sú stefna sem hæstv. forsrh. vitnaði til er hin harða hægri peningahyggja sem hann hefur sótt sínar fyrirmyndir til Thatcher í Bretlandi og Reagan/Bush-stjórnarinnar í Bandaríkjunum. Því betur er þetta stjórnarfar á undanhaldi og því betur benti ræða hæstv. forsrh. áðan, sem nú hefur vikið úr þingsal og þykir mér miður að geta ekki rætt þetta beint við hann, til þess að aðilum vinnumarkaðarins sé að takast að koma að einhverju leyti vitinu fyrir hæstv. núv. ríkisstjórn í efnahags- og atvinnumálum. Er það vel og að sjálfsögðu munu stjórnarandstæðingar styðja þá viðleitni ef hún getur orðið til þess að leiða núv. hæstv. ríkisstjórn af þeirri háskabraut sem hún hefur verið á í atvinnu- og efnahagsmálum.
    Þrátt fyrir ræðu hæstv. forsrh. áðan bendir því miður flest til þess að enn vanti miklu ákveðnari forustu og leiðsögn ríkisstjórnar í þeim tillögum sem nú er verið að vinna. Þær eru þess eðlis og svo erfiðar að það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess að aðilar vinnumarkaðarins einir móti þær og beri

fram. Það bendir margt til þess í fréttaflutningi allra síðustu daga að til þurfi að koma miklu ákveðnari leiðsögn stjórnmálamanna, miklu ákveðnari leiðsögn ríkisstjórnar en verið hefur fram að þessu.
    Virðulegi forseti. Ég hef komið á framfæri þeim atriðum sem ég vildi láta koma fram í umræðunni en ég vil láta það vera mín lokaorð að ítreka það sem ég sagð hér áðan að það er ánægjulegt ef það er að gerast að aðilum vinnumakaðarins sé að takast hægt og bítandi að sveigja ríkisstjórnina að einhverju leyti af þeirri háskabraut sem hún hefur verið á í efnahags- og atvinnumálum.