Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:03:54 (1981)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Það er rangt hjá hæstv. utanrrh. að alltaf sé samstaða um markmið. Það er vandi íslenskra stjórnmála að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. skuli ekki hafa skilið það. Það er ágreiningur um markmið. Það er t.d. ágreiningur um það höfuðmarkmið, sem ég nefndi áðan að hljóti að vera inntak átaks í efnahags- og atvinnumálum á næstu missirum og mánuðum, að verja velferðarkerfið. Hæstv. utanrrh. hefur ævinlega dregið það undan þegar um þau mál hefur verið fjallað. Þess vegna tel ég að ef hann er sammála þeim markmiðum sem ég nefndi áðan öllum í senn, sem auðvitað setja okkur ákveðinn vanda og skapa okkur erfiða stöðu að mörgu leyti og flókna, þá skipti það í raun og veru mjög miklu máli að hann hafi lýst því yfir og svo líka það að hann skuli vera orðinn þreyttur á að endurtaka sönginn um EES í síbylju.