Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:14:34 (1988)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einn aðili í þessu landi sem hefur þegar lagt á og innheimtir á ári hverju veiðileyfagjald. Sá aðili heitir Landssamband ísl. útvegsmanna. Það er fyrirtæki sem þarf ekki að kvarta undan bágri afkomu vegna þess að samkvæmt efnahagsreikningi fyrir árið 1991 er eigið fé, óráðstafað, 516.252.470 kr. Bankainnstæður 210.325.237 kr. og síðan mætti nefna að félagið innheimtir félagsgjöld upp á eitthvað á fjórðu milljón, hefur árlegar tekjur yfir 85 millj., fjármunatekjur, vaxtabætur og verðbætur 61 millj. og hagnað fyrir óreglulegar tekjur og gjöld 56 millj.
    Þetta eru þeir aðilar sem þegar innheimta veiðileyfagjald, aflagjald. (Gripið fram í.)
    Nú er það svo að aðalvandi okkar, og ég nefndi það áður, er uppsafnaður skuldavandi í sjávarútvegi upp á u.þ.b. 100 milljarða kr. Ef menn ætla að ráðast að rótum þess vanda þá byggist það fyrst og fremst á því að bæta afkomuhorfur og lífslíkur þeirra fyrirtækja sem geta haft traustan grundvöll til frambúðar þegar slík skuldaskil hafa farið fram og þá er það að sjálfsögðu eðlileg krafa þjóðarinnar sem á auðlindina að þeir sem þannig fá stöðu sína bætta eigi hlut að því að standa undir áföllnum skuldum. Hvort menn kalla það veiðileyfagjald eða ekki gildir mig einu, en það gjald mun koma.