Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:31:43 (1995)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það í einlægni að ég held að ræða hv. seinasta ræðumanns sé dæmi um ræðuhöld sem enginn er að neinu bættari. Forsrh. er á fundi sem hófst kl. 3 í tengslum við þá vinnu sem nú fer fram af fullum krafti og þar sem umræðuefnið er aðgerðir í atvinnumálum. Ég held að það skipti meira máli að menn vinni vinnuna sína við lausnir þessara mála en að skeyta skapi sínu með munnsöfnuði eins og hv. þm. gerði. Það er enginn bættari með því. Hv. þm. er fullkunnugt um hvers vegna einstakir ráðherrar eru fjarverandi. Það vill svo til að margir þeirra eru viðstaddir Norðurlandaþing. Einhverjar gagnrýnisraddir hafa heyrst um það að forsrh. og utanrrh. eru ekki þar. Ég hef fyrir mitt leyti gert ráðstafanir til þess að viðsk.- og iðnrh., sem sat þar líka sameiginlega fundi með Norðurlandaráðherrum, kollegum sínum, gegni þar störfum fyrir mig og ástæðan er mjög einföld: Hvorki forsrh. né utanrrh. taldi sig eiga heimangengt vegna þeirrar vinnu og vegna þeirra miklu fundarhalda sem nú fara fram. Ég held að það sé ekki gagnrýnisvert heldur þvert á móti.