Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:35:44 (1998)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé góð hugmynd sem hér kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að leyfa tveimur stjórnarmönnum í Atvinnuleysistryggingasjóði sem sitja á Alþingi nú sem varaþingmenn að fá hér orðið þannig að við getum hlýtt á mál þeirra. En mikið lifandi skelfing held ég að þeir hefðu gott af því, hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh., að hlusta á mál þessara manna. Ég held að þeir hefðu ekki síður gott af því en við venjulegir þingmenn.
    Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er fyrst og fremst sú að ég vil segja örfá orð við hæstv. utanrrh. Ég skil ekki þann tilgang og til hvers ferðin var upp í þennan ræðustól áðan ef það var ekki til annar en að skattyrðast við okkur þingmenn, virðulegi ráðherra. Ef það er ástæða til að veitast að þeim mönnum sem hér eru að tala um þetta þýðingarmikla mál og kvarta yfir því að ráðherrann geti ekki setið í húsinu eins og honum ber, þá veit ég ekki hvert við erum að fara. Ég á mörg orð ósögð við utanrrh. um ummæli hans síðustu daga í þessu máli. En utanrrh. væri sómi að því að koma upp í þennan ræðustól og biðja þingmenn afsökunar á orðum sínum áðan.