Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:37:34 (1999)

     Guðmundur Þ Jónsson :
    Herra forseti. Ég veit ekki hvort við stjórnarmenn í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bætum umræðuna mikið ef við höfum til hliðsjónar þær mörgu og merku ræður sem hér hafa verið fluttar enda reikna ég ekki með því að þau fáu orð sem ég legg hér til verði talin tímamótaræða í þinginu.
    Ég vil lýsa yfir ánægju minni yfir því að þessi tillaga skuli vera komin fram og tel fyllilega tímabært að fram fari rannsókn á þeim málum sem hún gerir ráð fyrir.
    Við sem störfum á skrifstofum verkalýðsfélaganna upplifum það einu sinni í viku eða á hálfs mánaðar fresti að tugir manna, oft á annað hundrað, koma til að sækja atvinnuleysisbætur. Við fylgjumst með því hvernig þessu fólki líður, hve illa því líður, hvernig sjálfsvirðingin þverr smátt og smátt, hvernig vonleysið tekur við og hvernig fjármál þessa fólks fara gersamlega í rúst eftir ekki langan tíma. Margt af þessu fólki hefur verið tekjulágt fyrir en að fara á atvinnuleysisbætur gerir kannski útslagið, það er að missa eignir sínar. Fólk getur ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sem það hefur reiknað með að geta þó staðið undir með þeim tekjum sem það hafði í venjulegri vinnu.
    Þetta eru þau sjáanlegu atriði sem við höfum fyrir augunum og eru afleiðing atvinnuleysis. Það hafa margir orðið til þess í dag að rekja það og lýsa því hvernig það kemur fram. Út af fyrir sig þarf ekki að bæta mörgum orðum við það. Ég vil hins vegar vekja hér athygli á öðru sem er kannski ekki eins sýnilegt í sambandi við þetta atvinnuleysi. Það er staða verkafólks á vinnustöðunum sem hefur gerbreyst til hins verra á undanförnum mánuðum og missirum.
    Fyrir fáeinum árum og jafnvel fáeinum missirum var það mjög fátítt að fólk þyrði ekki að sækja rétt sinn. Þá var það ekki algengt að yfirmenn og verkstjórar kæmu fram með hroka og yfirgangi gagnvart starfsmönnum. Þetta hefur breyst til hins verra. Nú er það mjög algengt að yfirmenn, verkstjórar, komi fram með yfirgangi og óbilgirni, eru meira að segja með hótanir og hræði fólk frá því að sækja rétt sinn. Það er ekki óalgengt og hefur alla tíð verið að það hefur verið brotið á fólki, stundum viljandi, stundum óviljandi. En a.m.k. hefur fólk sótt þennan rétt sinn. Það hefur leitað til stéttarfélaganna og fengið leiðréttingu sinna mála. Þetta hefur breyst mjög til hins verra. Nú er það oft þannig að fólk leitar upplýsinga, það þorir ekki að segja til nafns síns, það þorir ekki að segja hvar það vinnur o.s.frv. Það er hrætt. Enda klingir það oft ef það gerir athugasemdir: Góði maður, það eru hér hundruð manna sem bíða við dyrnar og vilja komast í vinnu. Það hræðir fólk, það kúgar fólk til þess að sætta sig við að á því sé brotið og það veigrar sér við að sækja rétt sinn. Þetta er ekki eins sýnilegt og það sem við sjáum fyrir okkur og er afleiðing atvinnuleysis. En þetta er eigi að síður mjög alvarlegur hlutur. Það er kannski ómaksins vert að rannsaka þennan þátt líka í þeirri könnun sem tillagan gerir ráð fyrir, þá breyttu stöðu verkafólks á vinnustöðunum og framkomu sem það þarf að þola og þann yfirgang sem það þarf að þola á sínum vinnustað.
    Það væri vissulega hægt að segja margt um ástandið í þessum efnum en ég ætla ekki að fjölyrða mjög um það heldur ræða örlítið önnur atriði sem komið hefur verið inn á. Fólk hefur talað hér um Atvinnuleysistryggingasjóð og reyndar farið nokkrum orðum um reglur hans. Ég get tekið undir það að sú 16 vikna bið sem núverandi lög gera ráð fyrir á ekki lengur við. Það hafa kannski aldrei verið mjög sterk rök fyrir því ákvæði og allra síst núna þegar fólk er farið að vera á annað ár á atvinnuleysisskrá, eins og mörg dæmi eru um. Það er ekki hægt að viðhalda þeirri reglu öllu lengur vegna þess að fólk verður að hafa eitthvað til að lifa á og það hefur ekkert annað að leita nema þá til viðkomandi sveitarfélags, félagsmálastofnana. Ég tel nauðsynlegt að breyta þeim reglum. Ég veit að það stendur yfir endurskoðun á lögunum þessa dagana. Ég veit ekki í hverju þær breytingar verða fólgnar sem þar eru lagðar til eða um hvað endurskoðunin snýst raunverulega en ég geri þó ráð fyrir að þessi atriði verði til endurskoðunar.
    Það er alveg rétt sem hér kom fram að við síðustu kjarasamninga tókst að stöðva fyrirhugaðar breytingar á réttindum fólks til atvinnuleysisbóta. Það var eitt af því sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með þegar hún tók við völdum, að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar og var nánast boðað með fyrsta frv. til fjárlaga sem hún lagði fram. En ég held að ég geti fullyrt að verkalýðshreyfingin mun aldrei líða það að núverandi réttindi fólks verði skert. Ég held að ég geti fullyrt það. Núverandi réttindi hljóða upp á tæpar 45 þús. kr. á mánuði og ég held að það sé alveg borin von að hægt sé að skerða þann rétt á nokkurn hátt. Það er enginn sem lifir á því og kannski deyr ekki heldur. En alla vega er það með þeim hætti að það er útilokað að skerða þau réttindi.
    Staða Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur náttúrlega verið að breytast mjög til hins verra á undanförnum árum. Við skulum ekki gleyma sögunni sem er á bak við Atvinnuleysistryggingasjóð, hvernig hann varð til. Hann varð til í hörðum stéttaátökum 1955 og er kannski einn af merkustu áföngum í baráttu verkalýðshreyfingarinnar ásamt mörgum öðrum að vísu. Hann gegndi því hlutverki í áratugi að vera einn helsti aðilinn sem fjármagnaði húsnæðiskerfið. Hann keypti bréf af Húsnæðisstofnun og fjármagnaði húsnæðiskerfið á sínum tíma. Eignir hans hafa verið að rýrna mjög á undanförnum árum. Ef það verður viðvarandi atvinnuleysi lengi, þá tæmist hann. Hann gengur á eignir sínar og sem dæmi get ég sagt það að fyrir um 20 árum síðan átti Atvinnuleysistryggingasjóður fyrir 10 milljón bótadögum. Ég hef ekki skoðað það alveg nýlega en fyrir tveim árum átti hann eingöngu fyrir milljón bótadögum. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi rýrnað töluvert síðan þannig að hann nær því varla að eiga fyrir milljón bótadögum. Þannig er staða sjóðsins. Að vísu eru lög hans þannig að ríkissjóður ber ábyrgð á honum. Ef hann skortir fé ber ríkissjóði að leggja honum það til en ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir sjóðinn og það tryggir miklu betur réttarstöðu fólks gagnvart atvinnuleysistryggingunum að sjóðurinn sé sjálfstæður og geti staðið við þær skuldbindingar sem honum ber.
    Aðeins nokkur orð um atvinnumálin almennt. Það er rétt að þessi mál eru öll alvarleg en ég held að það sé þó einna alvarlegast að á undanförnum mánuðum hefur ekkert verið að gerast sem gefur von um að þetta breytist. Við höfum nánast ekki heyrt neitt annað en úrtölur og svartsýni og það hefur enginn orðið til þess að lyfta þessu neitt upp og gefa fólki von um að eitthvað gæti farið að glæðast í atvinnumálum. Það er alveg rétt að við misstum af álveri eins og margoft hefur verið bent á. Það hefur alltaf verið mín skoðun að það hafi verið af hinu vonda. En það hefur ekkert komið í staðinn. Það hefur ekki verið unnið að neinu nýju í staðinn og menn hafa ævinlega brugðist mjög undarlega við öllu sem hefur verið að gerast síðan.
    Ég ætla að rifja það upp að þegar svarta skýrslan svokallaða um ástand þorskstofnsins kom fram í sumar var ekki það fyrsta sem mönnum datt í hug að bregðast við á einhvern hátt heldur boðuðu þeir að nú væru forsendur kjarasamninga brostnar. Þar yrði fyrst og fremst að taka á. En það datt engum í hug að ræða það fyrr en síðar að það væri hægt að bregðast við þeim vanda með einhverjum öðrum hætti.
    Virðulegi forseti. Það er kannski hægt að eygja örlítið ljós í myrkrinu þrátt fyrir allt og minna á það að við flytjum hér inn milli 5.000 og 6.000 ársverk í formi innfluttrar vöru. Verkalýðshreyfingin hefur nú tekið sig til ásamt mörgum fleiri aðilum og farið í auglýsingaherferð sem hvetur fólk til að velja íslenska framleiðslu. Ef Íslendingar taka nú vel við sér og velja íslenska framleiðslu, því við getum framleitt miklu meira en markaðurinn tekur við, getum við verulega létt á þessu atvinnuleysi og það svo að um munar. Ef menn eru samtaka og verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld leggjast á eitt um það að breyta hugarfari þjóðarinnar þannig að hún velji frekar íslenskt en erlent getum við verulega létt á atvinnuleysinu og eytt því jafnvel á skömmum tíma.