Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:49:19 (2001)

     Guðmundur Þ Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þetta hefur tíðkast nokkuð með svokallaða verktaka, undirverktaka, að fólk hefur verið ráðið til starfa á verktakagrundvelli án þess þó að það væri beinlínis verktakar. Það hefur þýtt að fólk hefur tapað verulegum réttindum. Það hefur komið síðan í ljós þegar upp er staðið að ekki hefur verið mikill ávinningur af þessu. Það hefur þá ekki átt rétt í sumum tilvikum til atvinnuleysisbóta þar sem um sjálfstæða atvinnurekendur hefur verið að ræða. Það er út af fyrir sig þáttur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að reyna að taka á og breyta því að það er engum til hagsbóta að þetta fyrirkomulag sé við lýði. Það hefur gengið misjafnlega að ná árangri í því eins og öllu öðru en við gerum okkur vonir um að með ákveðnum aðgerðum sé hægt að stemma stigu við þessu.