Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 16:01:10 (2004)

     Pétur Sigurðsson (andsvar) :
    Sú nefnd sem er að endurskoða lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð er skipuð af heilbr.- og trmrh. Í nefndinni er einn fulltrúi frá Vinnuveitendasambandinu, Jón Magnússon, og framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, Lára V. Júlíusdóttir, ég er í nefndinni, tilnefndur af heilbr.- og trmrh., Margrét Tómasdóttir, núverandi framkvæmdastjóri sjóðsins, og Dögg Pálsdóttir, fulltrúi í heilbr.- og trmrn. Áður var búið að skipa mjög stóra nefnd en stóru hagsmunasamtökin sem voru aðilar að henni voru sammála um að hún væri of stór til að fara ofan í svona nákvæma og viðkvæma hluti sem þar þyrfti að taka á og eðlilegra að það væri fámennari hópur. Það hefur verið tekið fram sérstaklega við þá aðila sem eru í nefndinni að þeir hafi gott sambandi við þá hagsmunaaðila sem málið snertir. Það hefur verið reynt að gera það og ég held að eftir því sem málið þróast lengra miðað við okkar vinnu komum við til með að leita enn frekar á næstu vikum og dögum álits aðila á hvað mætti fara betur og hvort við séum á réttri leið í endurskoðuninni.