Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 13:38:37 (2006)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Tillaga sú sem hér liggur fyrir fjallar um breytingu á vegáætlun fyrir yfirstandandi ár. Með tillögunni er fjárveiting til vetrarþjónustu lækkuð um 50 millj. kr., úr 490 millj. kr. í 440 millj. kr. Framlög til nýrra þjóðvega hækkar á móti um sömu upphæð og kemur hækkunin fram á liðunum Almenn verkefni og bundin slitlög, 40 millj. kr. og Stórverkefni, 10 millj. kr.
    Í tillögunni eru þessi viðbótarframlög síðan sundurliðuð á verkefni.
    Nú er það fremur fátítt að vegáætlun sé breytt þegar svo langt er liðið á árið og er því rétt að fara nokkrum orðum um ástæður fyrir breytingartillögu þeirri sem hér er til umræðu.
    Um miðjan september ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir auknum framkvæmdum til að bæta atvinnuástand. Var einkum horft til verkefna í vegagerð og var miðað við að 1.800 millj. kr. færu til þessa málaflokks á árinu 1993, þ.e. sama upphæð og í frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar var tiltekið að upphæðin skiptist milli kjördæma samkvæmt hefðbundnum reglum sem notaðar hafa verið við afgreiðslu vegáætlunar. Þá fylgdi samþykktinni einnig listi um þau verkefni sem njóta skyldu fjárins. Á verkefnalistanum eru fyrst og fremst þau verkefni sem voru í vegáætlun og langtímaáætlun á næstu árum. Má því segja að með þessu viðbótarfé sé verið að styrkja vegáætlun. Einstökum verkum er flýtt nokkuð en við það skapast aukið svigrúm fyrir önnur verkefni í áætluninni.
    Það var ósk ríkisstjórnarinnar að reynt yrði að ýta þessu átaki til atvinnuaukningar af stað sem fyrst. Var þá haft í huga að verkefnaskortur var þegar orðinn verulegur í verktakaiðnaði. Sá árstími fer einnig í hönd sem jafnan er daufastur í þessari starfsemi og því mikil þörf að koma verkefnum af stað. Einnig má nefna að útboð hafa óbein áhrif á markaðinn um leið og þau eru auglýst. Allt þetta mælti með því að bjóða út sem fyrst hluta verkefnanna. Með hliðsjón af þessu var Vegagerð ríkisins falið að hefjast þegar handa um útboð ef unnt væri og jafnframt að kanna möguleika á tilfærslum fjármagns innan vegáætlunar til að standa undir þeim kostnaði sem af því leiddi á þessu ári. Kostnaður við vetrarþjónustu var með minna móti sl. vetur vegna hagstæðrar tíðar. Er því fyrirsjáanlegt að nokkur greiðsluafgangur verði á þessum lið.
    Samkvæmt tillögunni á liðurinn Vetrarþjónusta að lækka um 50 millj. kr. en það á að nægja til að standa undir kostnaði á þessu ári við útboð þeirra verka sem tilgreind eru í tillögunni.
    Verkefni til fyrstu útboða samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar eru valin af Vegagerðinni. Valið ræðst fyrst og fremst af því hvaða verk voru komin nægilega langt í undirbúningi til að bjóða mætti þau út með svo skömmum fyrirvara.
    Þá er höfð hliðsjón af því hvernig verkefnin eru fallin til vetrarvinnu. Af þeim sex verkefnum sem fá fjárveitingu samkvæmt tillögunni eru tvö á Suðurlandi, tvö á Vesturlandi og tvö á Norðurlandi eystra. Verkefnin fá fjárveitingu samkvæmt mati á þörfum þeirra fram að áramótum. Það leiðir af þessu að í bili er vikið frá hefðbundinni skiptingu fjár á milli kjördæma í vegáætlun. Reglubundin endurskoðun vegáætlunar fer hins vegar fram á yfirstandandi þingi. Er gert ráð fyrir að við skiptingu fjár á kjördæmi á árinu 1993 verði tekið tillit til þessa og hún leiðrétt sem þessu nemur enda ganga öll verkin yfir á næsta ár. Þær heimildir, sem veittar eru samkvæmt tillögunni, taka til kostnaðar á þessu ári. Við endurskoðun vegáætlunar verður frekari fjárþörf þessara verkefna tekin til afgreiðslu. Í verksamningum sem fylgja í kjölfar útboða er gerður fyrirvari um samþykki Alþingis við fjárveitingum til þess að standa við skuldbindingar viðkomandi samnings.
    Nokkur útboð hafa þegar farið fram. Reynslan sýnir að mikil eftirspurn er eftir þessum verkefnum og tilboð hagstæð. Þetta undirstrikar þá brýnu nauðsyn sem var á því að ýta sem fyrst úr vör með átak til atvinnuaukningar á þessu sviði.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þessari tillögu verði vísað til samgn. og vil mælast til þess við nefndina að vinna og athugun á tillögunni verði látin sitja fyrir og hraðað eftir því sem kostur er.