Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 13:44:19 (2007)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til breytingu á vegáætlun fyrir yfirstandandi ár og þó að hér í sjálfu sér sé ekki um stóra upphæð að ræða, þ.e. 50 millj., sem taka á af viðhaldsfé vegna þess að vetrarþjónusta varð ekki eins mikil og áætlað var. Það á að færa yfir á framlag til framkvæmda, en lengri saga er á bak við það en hér er gefið til kynna. Á bak við það liggur, eins og hæstv. samgrh. kom inn á, sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir því að 1.800 millj. kr. séu lagðar í nýframkvæmdir í vegamálum. Þessi ákvörðun var tekin án samráðs við samgn. og án samráðs við þingmenn og því hafa þarna verið tekin upp alveg ný vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í því hvernig standa á að áætlunum um vegamál. Þetta eru vinnubrögð sem hafa verið gagnrýnd hér á þinginu þ.e. að ekki er búið að fjalla um þetta í þingmannahópum og heldur ekki í samgn. Þessi vinnubrögð eru því mjög gagnrýnisverð. Þarna er verið að brjóta upp verklag sem hefur tíðkast árum saman og komin hefð fyrir og sú afsökun er notuð að atvinnuástandið sé svo slæmt í þjóðfélaginu að það þurfi nauðsynlega að taka þessa ákvörðun á stundinni.
    Út af fyrir sig hljótum við sem erum að berjast fyrir því að samgöngur séu bættar um landið að fagna því að áætlað er að leggja aukið fé til framkvæmda í vegamálum þar sem þörfin er brýn. En við gagnrýnum þessi vinnubrögð og við gagnrýnum líka að sú afsökun sé viðhöfð að verið sé að bæta atvinnuástandið. Talið er að hverjar 10 millj. kr. í vegagerð geti skapað tvö og hálft ársstarf. Þetta er svo framreiknað og talið muni geta útvegað 480 ársverk eða allt að 500 ársverk.
    Ég er alveg viss um að það að leggja þetta fjármagn til vegagerðar er ekki mest atvinnuskapandi ef ríkisstjórnin væri að hugsa aðallega um það því ég er sannfærð um að það hefði mátt fjölga störfum og bæta atvinnuástandið á margan annan hátt heldur en með þessu.
    Það er einnig gagnrýnisvert í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar að þarna er ekki verið að taka nýtt fjármagn, ekki aukið fjármagn til vegagerðar, heldur verið að ganga á tekjustofna Vegagerðarinnar í framtíðinni því í fjárlagafrv., sem núna liggur fyrir þinginu, er sagt að þetta skuli tekið af mörkuðum tekjustofnun á næstu árum. En það hefur ekki enn verið mótað hvernig eða á hve löngum tíma.
    Það er því mjög margt í þessari litlu till. til þál. sem er hægt að gagnrýna og ég geri ráð fyrir að það verði tekið fyrir í framhaldi af því þegar vegáætlun verður endurskoðuð í samgn. og fjárln., hvort heldur sem verður, og muni umræður þá verða nokkuð miklar um það verklag sem hér hefur verið tekið upp.

    Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara nánar út í þá sérstöku liði sem hér eru, ég býst við að það sé útreiknað hjá Vegagerðinni og reyndar er áætlað síðan að skipta því upp eftir þeim skiptireglum sem gilda innan kjördæmanna. Um það verður að sjálfsögðu fjallað, bæði í tengslum við þessa breytingu og eins í tengslum við endurskoðun vegáætlunar sem gerð verður í framhaldi af þessu eða a.m.k. í vetur. En ég gagnrýni harðlega þessi vinnubrögð. Þau stangast á við núgildandi lög um hvernig staðið skuli að vegáætlun. Ég hefði talið betra hjá ríkisstjórninni að hafa um þetta samráð við þingmenn og hafa í heiðri þau vinnubrögð sem hér hafa viðgengist.