Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 13:51:12 (2008)

     Karen Erla Erlingsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í þessari till. til þál. ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir auknum framkvæmdum í vegagerð til að auka atvinnu. Það er að mínu mati góðra gjalda vert að hún skuli reyna eitthvað. Þetta er þó engin framtíðarlausn á þeim mikla vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag í atvinnumálum og skýrt kom fram hér í umræðum í gær. Þá á ég við hið aukna atvinnuleysi sem við eigum við að stríða og gæti orðið varanlegt ef ekki verður gripið til einhverra ráða og það fljótt. Þessar vegagerðarframkvæmdir koma heldur ekki til með að leysa atvinnuvandamál kvenna í þjóðfélaginu í dag.
    Hér kemur líka fram að vegna hagstæðrar tíðar síðasta vetur sé fyrirsjáanlegt að nokkur greiðsluafgangur verði á vetrarþjónustu á þessu ári og því sé fjárveiting til vetrarþjónustu á vegáætlun lækkuð um 50 millj. kr. og þessari upphæð bætt við fjárveitingu til nýrra þjóðvega. Ég tek það fram að ég er ekki á móti nýjum framkvæmdum en að mínu mati væri eðlilegt að nota þetta fjármagn til þess að auka þjónustu við íbúa þeirra byggðarlaga sem verst eru sett hvað varðar samgöngur að vetrarlagi. Ef ég tek mitt kjördæmi, Austurland, sem dæmi, þá eru það byggðarlög eins og Vopnafjörður, Neskaupstaður, Borgarfjörður eystri og Seyðisfjörður. Í stað þess að vegir eru aðeins opnaðir þrisvar sinnum í viku ætti það að vera sjálfsögð þjónusta við íbúa að opna þá daglega eða þegar þess er þörf. Ég reikna með að Vestfirðingar eigi við sama vandamál að stríða.
    Auk þess vil ég geta þess að vinnubrögð hæstv. samgrh. við skiptingu fjármagns á einstök verkefni eru forkastanleg þar sem ekkert samráð er haft við þingmenn viðkomandi kjördæma eins og venja er til. Talandi um sameiningu sveitarfélaga, en það virðist vera töfralausnin hjá þessari ríkisstjórn í atvinnumálum fyrir utan EES eins og fram kom hjá hæstv. utanrrh. í gær, þá er sameining sveitarfélaga á ákveðnum svæðum alveg út í hött ef ekki koma til eðlilegar samgöngur á milli staða innan væntanlegs sveitarfélags. Fyrir mér er það t.d. mikið viturlegra að sameina allan Reykjanesskagann eins og hann leggur sig í eitt sveitarfélag en sameina t.d. Jökuldalshrepp, Fljótsdalshérað og Seyðisfjörð af ofangreindum ástæðum.