Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:00:19 (2010)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál ber að vægast sagt með nokkuð sérkennilegu hætti en sjálfsagt fer það í gegn vegna þess að hv. þm. hafa skilning á mikilvægi þess að flýta framkvæmdum í vegagerð almennt. Menn verða samt að gæta þess, þótt kappsfullir séu, að virða leikreglur. Það er einmitt þess vegna sem ég er kominn í þennan ræðustól, til að finna að því að hæstv. ráðherra hefur ekki gert það í þessu máli.
    Hér er engin spurning um það að um breytingu á vegáætlun er að ræða og þess vegna er það, eins og hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum sem hér hafa talað á undan mér, að það hefði verið sjálfsagt að hæstv. ráðherra hefði komið með þetta mál til samgn. þingsins og kynnt það fyrir samgöngunefndarmönnum og síðan hefði þingmönnum hinna ýmsu kjördæma gefist kostur á að fjalla um málið eins og gert er við skiptingu vegafjár. Ég skal ekkert um það dæma hvort einhverjir aðrir vegarkaflar hefðu orðið fyrir valinu ef svo hefði verið. Menn hefðu orðið að sætta sig við það og ráðherrann þá líka en það eru þær leikreglur sem hér hafa verið viðhafðar. Það er engin spurning um það í mínum huga að hér er um breytingu að ræða á vegáætlun og einstökum verkefnum er þess vegna flýtt langt fram yfir önnur verkefni sem þingmenn kjördæma hefðu sett framar.
    Aðeins til þess að við glöggvum okkur á því, ekki bara þingmennirnir heldur líka hæstv. ráðherra, þá langar mig til að lesa örstuttan kafla í vegalögum og hvað þar er sagt um vegáætlun. Þar segir svo, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Samgönguráðherra leggur að fengnum tillögum vegamálastjóra tillögu til þingsályktunar um vegáætlun fyrir Alþingi. Í tillögunni skal gerð grein fyrir fjáröflun þeirri, sem fyrirhuguð er á áætlunartímabilinu, og útgjöld sundurliðuð eftir helstu framkvæmdaflokkum skv. lögum þessum. Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveða skiptingu útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þingsályktun um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.``
    Síðan segir: ,,Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í tillögu til þingsályktunar um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunarinnar á sama hátt og að framan getur.``
    Hér er náttúrlega alveg skýrt talað og þarf þess vegna ekki miklu fleiri orð um þetta. Hér hefur ráðherranum því miður orðið á. En eins og ég sagði, þá hef ég tilfinningu fyrir því að honum verði fyrirgefið vegna þess að menn skilja og finna hve þörfin er brýn á framkvæmdum í þessum málaflokki. En skilaboðin eru alveg skýr, virðulegi ráðherra, að hér er ekki farið að eðlilegum leikreglum.
    Ráðherrann notaði það einnig sem vörn í málinu að þessi tími sem nú væri væri einstaklega heppilegur til útboða og skynsamlegt þess vegna að vera í vegagerð. Það er alveg rétt. Ég er ráðherra sammála um það. Þess vegna vil ég spyrja ráðherra að því hvort hann hafi þá ekki hugsað sér að við gætum breytt um vinnubrögð og hagað því svo að við gætum verið með vegaframkvæmdir í gangi í miklu ríkari mæli en verið hefur hingað til, nánast samfellt árið um kring. Við eigum mjög mikið af dýrum tækjum sem standa allt of lengi ónýtt. Það vitum við og þess vegna er það kannski, eins og ráðherrann sagði, að við fáum hagstæð boð. Menn velta því nú fyrir sér hvernig það megi vera að þau verk sem eru boðin út þessa dagana í vegagerð eru nánast flest eða öll innan við 60% af kostnaðaráætlun ef ég hef heyrt rétt. Algengar tölur sem við heyrum eru svona 52--54% af kostnaðaráætlun. Ég er því ekkert hissa á því þótt ráðherrann vilji hraða framkvæmdum.
    Ég þarf nú ekki, virðulegi forseti, að lengja mál mitt en mig langar þó til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg skýrt og rétt skilið hjá mér að þessi verk sem er talað um, a.m.k. einhver þeirra, séu ekki inni á verkáætlun eða áætlun Vegagerðarinnar. Það út af fyrir sig finnst mér, eins og ég hef sagt, ekki rétt af ráðherra að hafa gert án þess að hafa samráð við þingmenn viðkomandi kjördæma vegna þess að það raskar auðvitað þeim áætlunum sem menn hafa verið að gera til lengri tíma.
    Menn hafa vikið að því að undanfari þessara framkvæmda er auðvitað það fjármagn sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir að leggja fram til þess að glæða og auka atvinnu hér í landinu. Auðvitað eru þær tölur sem settar voru fram, tæpir tveir milljarðar kr., mjög falskar tölur og standast náttúrlega hvergi. Það

er ekki nema brot af því sem á að fara til aukinnar vegagerðar. Það vitum við vegna þess að það eru aðrir liðir sem voru settir inn sem mínusa þessa upphæð svo það nemur háum upphæðum. Þannig er það nú. Svo er hitt, að ef við færum að skoða það, þá er spurning hvort þessi verk eru einmitt valin með tilliti til þess að þau þjóni þessu eða komi til með að verka á þeim stöðum þar sem atvinnuástandið er hvað verst.
    Virðulegi forseti. Ég undirstrika það enn og aftur að ég fagna hverri krónu sem kemur til þess að auka framkvæmdir í vegagerð landsins. Ég held að það sé brýnt mál. Það er mikið byggðamál og það er heljarins mikið mál fyrir okkur öll sem byggjum þetta land. Það hefur ekki orðið breyting í vegagerð á síðustu árum, það hefur miklu fremur orðið bylting á seinni tíma og því ber að fagna. En ég stend upp, virðulegi forseti, fyrst og fremst til að gagnrýna meðferð ráðherrans á þessu máli, að hann skuli hafa gengið fram hjá þingnefnd og þingmönnum kjördæmanna.