Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:17:51 (2012)

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Stjórnarliðar eru nú afar stoltir yfir þessu framtaki sínu. Við stjórnarandstæðingar töldum að vísu í fyrra að mikilvægt væri að auka hin ýmsu verkefni en hér tala þeir eins og þeir séu að finna upp nýjungar, séu allt í einu að koma með nýja peninga inn í málið. Er það ekki ljóst að hér er verið að ganga á tekjustofna framtíðarinnar? Er það ekki alveg ljóst að í þessum tillögum ríkisstjórnarinnar stendur að það á að taka nokkur stórverkefni sem verða skorin af fjármagni næstu ára? Það er farið í nokkur stórverkefni og hinir almennu vegir margir hverjir sem skipta íbúa landsbyggðarinnar ekki litlu máli munu enn frekar sitja á hakanum. Það er t.d. ljóst í þessu að hér hefur ríkisstjórnin leyft sér það að taka inn verkefni sem ekki hafa komist inn á vegáætlun. Verður ekki að skera niður einhver verkefni í framtíðinni til þess að fjármagna þau? Einhverju verður fórnað fyrir það? Fyrir utan hitt sem manni er kannski ofarlega í huga: Hverjum er verið að bjarga með þessu? Voru það ekki stóru risarnir, verktakarnir, sem drundu hátt yfir ríkisstjórnina og sögðu: Við erum að deyja vegna stefnu ykkar? Þið verðið að draga okkur að landi, sögðu þeir. Þið verðið að fara í stórverkefni, enda fylgdu skilaboð frá hæstv. samgrh. um að heimamenn mættu ekki sitja að þessum bitum, þeir yrðu að berjast við risana hér á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá þetta verkefni. Ég hef grun um að það séu mörg atriði í þessum dúr sem ráði því að ríkisstjórnin hefur nú ráðist í þessa stórverkaáætlun. Það hriktir í víða í samfélaginu vegna atvinnuástandsins og mörg stór verktakafyrirtæki eru auðvitað að fara á hliðina og kannski fjármálastofnanir í leiðinni.