Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:22:37 (2016)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér er það mjög mikilvægt að menn tali um þessi mál þannig að fólk skilji hvað verið er að tala um. Hér koma stjórnarþingmenn og tala um aukið fé til vegagerðar. Það er rangt. Það

er ekki verið að auka fé til vegagerðar. Það er verið að flýta framkvæmdum. Það er verið að skerða fé til vegagerðar það mikið, eins og ég lýsti áðan, að af þessum 1.800 millj., sem gert er ráð fyrir að taka að láni og á að greiða til baka á næstu 4--5 árum, er ekki eftir eftir þetta ár meira en 876 millj. kr. Þessar 876 millj. eru ekki nema rúmlega það sem skorið var niður í fyrra af fyrirhuguðum framkvæmdum í vegagerð. Mér finnst mjög mikilvægt að menn tali um þetta eins og það er. Ég er ekki á móti því að menn taki þessi lán en menn eiga ekki að tala eins og það sé verið að ákveða það að vinna einhver verkefni í vegagerð sem ekki stóð til að vinna. Það er verið að tala um að flýta þeim. Það sem við höfum gagnrýnt hér er fyrst og fremst hvernig að því hefur verið staðið að velja þessa framkvæmdaröð. Þar hafa menn gripið tækifærið til að breyta henni án þess að láta málið fara í gegnum þann feril sem það á að fara.