Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:35:47 (2020)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvernig ræður eru haldnar af hálfu stjórnarandstæðinga við þessa umræðu. Ólund þeirra í garð hinnar mikilvægu ákvörðunar að hraða framkvæmdum í vegagerð kemur mjög glöggt fram ekki síst hjá hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Vestf., og er ástæða til að hann geri betur grein fyrir því hvaða tillögur hann hefði lagt fram aðrar en þær að leggja til sömu framkvæmdir á Vestfjörðum og eru í frv., þ.e. vegskáli í Óshlíð og vegurinn á milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Það væri fróðlegt að heyra hvað þeir leggja til í þessum efnum.
    Það vakti mikla athygli að þegar tillögurnar komu fram hjá ríkisstjórninni óskaði einn af þingmönnum Alþb., hv. 14. þm. Reykv., eftir því að Ríkisendurskoðun tæki málið til meðferðar, hvort ríkisstjórninni væri heimilt að ganga til þeirra mikilvægu verkefna að auka og tryggja atvinnu, bæta framkvæmdir í vegamálum eftir að síðasta ríkisstjórn með alþýðubandalagsmann í samgrn. hafði unnið að þessum verkum. Það er nauðsynlegt að rifja þetta rækilega upp og minna á svipaðan málflutning og hv. 5. þm. Vestf. hafði uppi í umræðum um Skipaútgerð ríkisins á síðasta þingi. Ég held að hv. stjórnarandstæðingar ættu miklu fremur að fagna þeirri tillögu sem fram hefur komið en að leggjast í ólund út af henni.