Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:46:08 (2028)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hefði óskað eftir viðveru hæstv. félmrh., ef hægt væri. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. félmrh. verði við þessa umræðu. ( Forseti: Hæstv. félmrh. hefur fjarvistarleyfi í dag og er staddur á Vestfjörðum.)

    Herra forseti. Vel má vera að hæstv. félmrh. telji þörf á því að auka fylgi Alþfl. á Vestfjörðum og ekki skal gert lítið úr því en það vill svo til að það er vonlaust að ræða þetta mál frekar án þess að hæstv. félmrh. sé við.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti geri sér grein fyrir því að þegar beðið er um ráðherra er annaðhvort verið að biðja um að fá ráðherrann á staðinn eða frestun umræðunnar þar til ráðherrann getur verið við. Ég vil fá úrskurð forseta um það hvort hann sé reiðubúinn að fresta umræðunni þar til hæstv. félmrh. getur verið við. ( Forseti: Forseti á erfitt með að átta sig á samhenginu þarna á milli. Hvers vegna leggur hv. þm. svo mikla áherslu á að fá hæstv. félmrh. á fundinn þar sem hér er verið að tala um samgöngumál? Forseti vill biðja hann að endurskoða þessa ósk sína.) Herra forseti. Mér er ljúft að reyna að verða við því að upplýsa forseta betur um málið en vonlaust er að endurskoðun verði.
    Þannig var mál með vexti að hæstv. félmrh. á sínum tíma, Alexander Stefánsson, beitti sér fyrir sameiningu sveitarfélaga í Austur-Barðastrandarsýslu. Þegar þær umræður fóru fram var það eitt og annað sem sveitarstjórnir á því svæði spurðu um og vildu fá svör við. M.a. var það talið grundvallaratriði, ef þetta ætti að hafa einhvern tilgang, að fá það staðfest að opinberir aðilar tryggðu viðunandi heilsugæslu í Reykhólasveit hinni nýju. Viðunandi heilsugæsla byggðist á því (Forseti hringir.) að vegasamband milli Reykhólahrepps og Búðardals yrði til staðar þar sem læknar fyrir svæðið sitja í Búðardal. Það er vonlaust annað, herra forseti, en að sá skilningur verði til staðar að hægt sé að fá frestun á umræðunni til að fá úr því skorið hvort núv. félmrh. hefur lagt það til í umræðum í ríkisstjórn um þessi mál, að staðið verði við þau loforð sem gefin voru þá um Gilsfjarðarbrú.
    Ég ítreka ósk mína um frestun á umræðunni. ( Forseti: Forseti vill byrja á því að biðja hv. þm. afsökunar á þessum bjölluhljómi, forseti hafði stutt á rangan takka í borðinu þannig að þingmaðurinn hefur ekki lokið tíma sínum. Þá vill forseti enn og aftur óska eftir því að hv. þm. beri fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um þetta efni sem hann hefur rakið hér. Hv. þm. hefur alla möguleika á því að fá svör frá hæstv. félmrh. um þetta efni sem vissulega er mikilvægt og hv. þm. nefndi, en óskar eindregið eftir því að umræða um samgöngumál megi halda áfram.)
    Herra forseti. Það er mikill misskilningur að leggja megi fram á Alþingi fyrirspurnir um hvað gerist í ríkisstjórn. Bókanir ríkisstjórnarinnar eru ekki opinberaðar fyrir þingheimi með fyrirspurnum. Ég hef óskað eftir því að umræðunni verði frestað þar til úr því fáist skorið hvort hæstv. félmrh. hafi fylgt því loforði eftir að beita sér fyrir því að þessi brú yrði byggð.
    Mér sýnist með ólíkindum hvað hæstv. forseti virðist misskilja þetta mál. Ég hef það fyrir satt eftir öðrum leiðum að hæstv. félmrh. hafi lagt til í ríkisstjórn að Gilsfjarðarbrú yrði boðin út núna. Ég vil fá svör ráðherrans við því. Ég fæ þau ekki nema ráðherrann sé við umræðuna. Ég er ekki að spyrja um það hvort Gilsfjarðarbrú verði færð aftur fyrir aldamót. Ég vil aðeins fá staðfestingu á því hvort bjóða eigi hana út eins og um hefur verið rætt eða ekki.
    Það verkar ekki vel á mig hvernig hv. 1. þm. Vesturl. sem getur stundum sagt mikið með þögninni, ( Samgrh.: Eins og . . .  ) Já, það er rétt tilvitnun hjá hæstv. ráðherra, fer í kringum þetta mál. Það verkar heldur ekki vel á mig hvernig hv. 3. þm. Vestf., sem lét mynda sig við brúarstæðið fyrir seinustu kosningar og vildi koma því á framfæri að hann væri sérstakur áhugamaður um þetta mál, situr nú heitur í vöngum og hálffelur andlitið vitandi að það eru einföld sannindi að peningar verða ekki samtímis notaðir á vegáætlun til að endurgreiða lán vegna brúargerðar yfir Kúðafljót og til þess að byggja brú yfir Gilsfjörð.
    Ég óska ráðherra til hamingju með það að hafa unnið það afrek að sigra kratana í ríkisstjórninni varðandi vegamálin sem heild og fá þá til að fallast á meiri fjármuni til vegamála þó það sé aðeins í formi flýtingar og það eigi að greiða það af framkvæmdafé seinna. En mér finnst það skipta höfuðmáli hvort menn eru að tala um endurgreiðslur á þessu fjármagni eftir 8 til 10 ár eða hvort menn eru að tala um að hefja þær endurgreiðslur jafnsnöggt og hér er verið að tala um. Því ef það er ákveðið að hefja endurgreiðslurnar jafnsnöggt og hér er verið að tala um eru menn að ýta ákveðnum verkefnum út af borðinu. Á sínum tíma gaf hæstv. félmrh. þau svör að með þessu móti vildi hann tryggja eðlilega heilbrigðisþjónustu á Reykhólum. Hann hafði til þess stuðning ríkisstjórnar sinnar og því verður ekki tekið þegjandi að það verði gengið á bak við þær yfirlýsingar. (Forseti hringir.) Herra forseti. Hvað táknar bjölluhljómurinn nú? ( Forseti: Hann táknar að hv. þm. hefur lokið við þann tíma sem hann hefur til umráða í fyrra skiptið sem hann má taka til máls.)
    Herra forseti. Ég vænti þess að forseti hafi samviskusamlega dregið frá þann tíma sem hann notaði sjálfur á þessu tímabili.