Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:54:40 (2030)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Vestf. er vel kunnugt um það að einhugur er meðal þingmanna Vesturl. og Vestf. að standa við þau áform sem verið hafa um gerð Gilsfjarðarbrúar. Ljóst er, eins og fram kom í máli hæstv. samgrh., að á árunum 1993 og 1994 var eingungis gert ráð fyrir litlum upphæðum til þessa verks. Það hefur verið mat sérfræðinga Vegagerðar ríkisins að með þeirri flýtingu á vegamálum sem ríkisstjórnin hefur kynnt er ljóst að hagur Gilsfjarðarbrúar muni vænkast mjög og það verði fremur en áður hægt að tryggja að gerð brúarinnar gangi sem best og snurðulausast fyrir sig.
    Ég er sannfærður um að þrátt fyrir að hv. 2. þm. Vestf. og raunar eftir atvikum hv. 5. þm. Vestf. séu að reyna að búa til ágreining um þetta mál, vita menn að um málið hefur verið býsna góð samstaða þingmanna í báðum kjördæmum. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt, vænti ég þess að sú samstaða megi ríkja áfram.
    Auðvitað er ljóst að málin hafa verið lögð þannig upp varðandi þá endurgreiðslu sem koma mun til, að hún mun ekki falla til á allra næstu árum og þess vegna fráleitt að hún hafi áhrif á gerð Gilsfjarðarbrúar. Sú flýting á verkefnum sem nú hefur verið lögð til mun fremur auðvelda gerð brúarinnar en hitt.