Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:03:48 (2036)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það verður ekki annað sagt en að sumir hv. stjórnarandstæðingar séu fullalvörugefnir utan um sig í þessari umræðu í þessu annars jákvæða máli. Allir virðast vera sammála um að hér

sé um gott mál að ræða en á hinn bóginn hafa þeir hinir sömu allt á hornum sér. Fyrst og fremst er ástæða til þess að fagna því máli sem hér er til umfjöllunar, að ákvörðun skuli hafa verið tekin um átak sem styður aukna atvinnu og framkvæmdir í landinu við erfiðar aðstæður. Það er mergurinn málsins. Menn geta deilt um tæknileg atriði og á kannski ekki að þurfa langan tíma í það, en meginmálið er að tekin var ákvörðun um að ganga til verka á þann hátt sem reyndar hefur verið rætt um bæði í röðum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, að koma til móts við erfiða stöðu í þjóðfélaginu. Þess vegna skýtur skökku við að halda umræðunni áfram á þessum grundvelli. Auðvitað er þessi flýting verka blóðgjöf fyrir atvinnu og framkvæmdir í landinu. Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir nefndi að menn hafa talað um 500 ársverk eða þar um bil og ætti ekki að þurfa að deila um jákvæða hluti þó svo í minna magni mæli miðað við það fjármagn sem ætlað er til verkanna.
    Þessi umræða hefur svolítið minnt mig á frásögn í sjónvarpinu fyrir skömmu þar sem þingfréttamaður sjónvarps sá ástæðu til þess að segja frá því í kvöldfréttum að nú væri afslappað ástand í Alþingi, öllum virtist líða vel, umræður gengju vel og snurðulaust og enginn virtist þjást. En daginn eftir helltu sér yfir fréttamanninn nokkrir úr röðum stjórnarandstæðinga og sögðu að þetta væri argasta lygi, þeim liði illa og allt væri í versta óstandi. Það er slæmt þegar umræða gengur á svona nótum.
    Hér hefur verið minnst á ákveðnar framkvæmdir og ég get nefnt það sem ákveðið hefur verið að gera í Suðurlandskjördæmi. Kúðafljót, Þingvallavegur og vegur frá Laugarvatni að Geysi. Allt eru þetta verkefni sem eru fremur á landsmælikvarða en kjördæmismælikvarða. Um Þingvallaveginn, um veginn að Gullfossi og Geysi og um Kúðafljót fara kannski í meiri mæli aðrir en Sunnlendingar sjálfir. Tilgreindu vegirnir tveir eru einhverjir mestu ferðamannavegir landsins og Kúðafljót er ekki síst til hagsbóta fyrir Auturland og umferð austur um land. Menn ættu ekki að gagnrýna að ákvörðun um þessi mikilvægu verk sé tekin, heldur taka því jákvæðum höndum þó kannski væri hægt að benda á ýmis verkefni önnur sem væru meira í þágu Sunnlendinga sérstaklega en þau sem ákveðið hefur verið að fara í.
    Það er einkennilegur málflutningur hjá hv. 2. þm. Vestf. að agnúast út í þessa afgreiðslu málsins eins og hún liggur fyrir sérstaklega með tilliti til þess að auðvitað vænkast hagur Gilsfjarðarbrúar með þessu flýtiverkefni. Ekkert bendir til þess að það gangi ekki fram samkvæmt áætlun. En það virðist þurfa eitthvað mjög mikið til þess að hugarástand hv. þm. geti farið batnandi og kannski ekki á neinna færi að skera þar úr um.
    Það var minnst á Herjólf í umræðunni. Ég vil bara geta þess að áætlunargerð á því verkefni, annars vegar á smíði skipsins og hins vegar aðstöðu fyrir skipið, fór ekkert fram úr áætlun en það var sett upp í tvennu lagi. Í þriðja lagi er rekstrarþáttur sem er í höndum ráðuneytismanna tveggja ráðuneyta. En ekkert hefur farið úr lagi og reyndar má geta þess að smíði skipsins sjálfs var undir áætluðum smíðakostnaði sem þýddi að menn voru innan ramma þegar kom að því að byggja landgöngubrýr í skipið í Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum.
    Það er erfitt að ætlast til þess að menn gangi til flýtiverkefna og til átaks við erfiðar kringumstæður en komi síðan á hitt borðið og gagnrýni það að menn skuli taka þá ákvörðun sem ætlast var til í öðru orðinu. Hér er um framkvæmd að ræða sem er jákvæð og góð. Henni er vel tekið af landsmönnum. Vegagerð er arðbær fjárfesting og líklega einhver sú arðbærasta sem hægt er að benda í dag og þetta verkefni stuðlar að jafnrétti. Þetta verkefni er brúarbygging til jafnræðis byggðanna í landinu og á þeim nótum held ég að menn ættu að horfast í augu við það en vera ekki að eltast við tittlingaskít.