Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:18:55 (2045)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér hafa eðlilega orðið nokkrar umræður um till. til þál. um breytingu á þingsályktun um vegáætlun fyrir árið 1992. Það er upphaf þessa máls að af því bárust fregnir að hæstv. ríkisstjórn hygðist í tengslum við erfitt atvinnuástand leggja 1.800 millj. kr. til aukinna framkvæmda í vegamálum. Þessum fréttum fögnuðu menn að vonum en sú hrifning stóð því miður ekki lengi óskert því í næstu umferð kom í ljós að þessar 1.800 millj. skyldu reiknaðar ofan á áður niðurskorinn grunn vegáætlunar upp á tíunda hundrað milljónir kr. Hin eiginlega aukning vegafjár væri þannig mælt ekki nema tæpar 900 millj. Enn dvínaði svo hrifningin þegar í ljós kom að þessar 900 millj., sem voru til aukinna framkvæmda, voru ekki framlög heldur lántaka.
    Út af fyrir sig getur verið skynsamlegt og er oft gert að flýta framkvæmdum og það er vel þekkt að gera það með lánsfé þegar um einstök verk er að ræða. En reynslan af því að ganga of langt í þeim efnum er líka slæm. Ég vil nefna sem dæmi þá stöðu sem Suðurlandskjördæmi var komið í á árabilinu 1987--1989 vegna mikilla lántöku sem þá hafði farið fram til að ljúka reyndar mjög brýnum og þörfum verkefnum, eins og flestar vegaframkvæmdir eru, en gerðu það að verkum að skuldastaða kjördæmisins var

orðin mjög þung og stór hluti fjárveitinganna á hverju ári fór í að greiða eldri lán. Þannig rúllaði kjördæmið á undan sér verulegum skuldum sem með tilheyrandi kostnaði skertu framkvæmdafé þegar til lengri tíma var litið.
    Ég held að menn þurfi að hafa í huga að því eru auðvitað takmörk sett hversu mikið er hægt að gera í þessum efnum og hversu langt er réttlætanlegt að ganga í lántökum því þær þarf að borga aftur.
    Það hefur einnig verið gagnrýnt og að mínu mati mjög að réttu hvernig að þessari ákvörðun var staðið. Því miður er það svo að tæplega er hægt að horfa fram hjá því að sá verklagsmáti sem hæstv. ríkisstjórn tók upp er skýlaust brot á vegalögum. Gengið er algjörlega í berhögg við fyrirmæli 10. gr. vegalaga um hvernig standa skuli að ákvarðanatöku um vegamál. Sú lagagrein hefur verið lesin upp í heild sinni fyrr í umræðunni og ég vitna til þess. Það er alveg ljóst að þar er mælt fyrir um að Alþingi skuli í meðhöndlun vegáætlunar skipta vegafé, hvort sem um venjulegar fjárveitingar á grundvelli markaðra tekjustofna er að ræða eða ef viðbótarfjármagn kemur til vegaframkvæmda með einhverjum hætti. Í síðari málsgrein 10. gr. segir: ,,Sé veitt fé til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í till. til þál. um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunar á sama hátt og að framan getur.`` Þ.e. Alþingi skal skipta fjárveitingunum niður á einstök verk og ákveða framkvæmdatilhögun.
    Þessu til viðbótar gilda, hæstv. forseti, mjög fastmótaðar verklagsreglur um hvernig Alþingi og þingmannahópar kjördæmanna vinna að slíkum verkum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar verklagsreglur og fyrirmæli 10. gr. vegalaga er verið að brjóta.
    Það sem ég tel þó langalvarlegast í þessu sambandi, og mér finnst skaði að menn skuli ekki gæta rætt hér í hreinskilni og horft fram hjá flokkadráttum í þeim efnum, er hvaða staða verður í framkvæmdum til vegamála til lengri tíma litið í tengslum við þessa ákvörðun. Því miður er ljóst að á þessu ári er verið að færa ný útgjöld yfir á hina mörkuðu tekjustofna Vegagerðarinnar, sem er rekstur ferja og flóabáta, svo nemur 330--500 millj. kr. á næstu árum spái ég. Þeir peningar verða teknir af hinum markaða tekjugrundvelli vegagerðar og fara ekki til annarra framkvæmda. Strax frá og með árinu 1994 og til næstu ára verður ráðstöfunarfé til vegagerðar þannig minna en ekki meira en ella hefði verið í tengslum við þessar ákvarðanir af tveimur ástæðum. Annars vegar verður Vegagerðin með á herðunum útgjöld vegna reksturs ferja og flóabáta sem geta numið allt að hálfum milljarði og hins vegar fara að falla afborganir af 1.800 millj. kr. láninu sem tekið verður á næsta ári til þessara framkvæmda.
    Munurinn er sá að ef þessar 1.800 millj. kr. hefðu verið framlög hefði verið ástæða til að standa hér og fagna og það virkilega heitt og innilega. Ég segi þó ekki nema 900 millj., sem er aukningin, hefðu verið framlög hefði líka verið ástæða til að fagna. Það er því miður ekki eins mikið gleðitilefni sem við erum að ræða þegar í ljós kemur að fyrst eru framlögin skert um rúmar 900 millj. --- það er reyndar ekki rétt, það er ekki nákvæmt orðalag, framlögin eru skert um 700 millj. og síðan eru 1.800 millj. teknar að láni. Í stað þess að þessar 700 millj. séu óafturkræf framlög til framkvæmda eru þær lán sem þarf að endurgreiða.
    Þetta er því miður það dapurlega við þetta mál sem að öðru leyti er á ýmsan hátt mjög jákvætt. Jákvæðasta er auðvitað að vegirnir koma í gagnið og verða ekki aftur teknir og það skal ég verða fyrstur manna til að viðurkenna og fagna.
    Ég spurði hæstv. fjmrh. að því í umræðum um fjáraukalög hvort ekki væri alveg ljóst að þetta yrði allt saman lántaka. Því miður staðfesti hæstv. fjmrh. það og hann sagði meira. Það var skilyrði af minni hálfu til þess að fallast á þetta að þetta yrði lántaka og hún yrði endurgreidd strax af mörkuðum tekjustofnun Vegagerðarinnar á næstu árum. Ég bið menn að fletta upp á þessum orðaskiptum okkar hæstv. fjmrh. ef þeir trúa ekki minni endursögn. ( ÓÞÞ: Strax á næstu árum.) Á næstu árum, ef ég man rétt, var orðalag hæstv. fjmrh. Á sama tíma og Vegagerð ríkisins á á komandi ári að leggja 344 millj. í ríkissjóð af sínum mörkuðu tekjum og taka á sig kostnað af rekstri ferja upp á 330 millj. er hún svo í hinni hliðinni að taka lán til aukinna framkvæmda.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. samgrh. til að byrja með: Kemur ekki til álita til að reyna að ná betur saman um þessi mál að hann beiti sér fyrir því að a.m.k. það af tekjum Vegagerðarinnar sem gera átti upptækt í ríkissjóði á næsta ári verði notað í þessar framkvæmdir þannig að skuldin lækki þó sem því nemur? Auðvitað er það mjög öfugsnúið að gera hinar mörkuðu tekjur Vegagerðarinnar annars vegar að tekjustofni fyrir ríkissjóð en slá lán fyrir framkvæmdum á sama tíma. Það er mjög öfugsnúið og ekki sanngjörn útkoma.
    Hæstv. forseti. Ég sé að senn fer að blikka á mig ljós, því miður. Ég hefði viljað segja margt fleira um þetta og geri það kannski síðar í umræðunni. T.d. hefði verið fróðlegt að rifja upp ummæli ýmissa hv. stjórnarandstæðinga á Alþingi árið 1989 þegar hliðstæðir atburðir, ef svo má að orði komast, voru til umræðu í sambandi við vegamál. Ýmsir þeirra, þar á meðal hv. 2. þm. Norðurl. e., Pálmi Jónsson, mótmæltu mjög því harðlega svo ekki sé meira sagt með þyngra orðbragði en viðhaft hefur verið í dag að gengið væri fram hjá Alþingi, þingmannahópum kjördæmanna og þeim sem með þessi mál ættu að fara samkvæmt lögum í þeim efnum.