Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:33:17 (2048)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að hér sé verið að leggja fram vegáætlun í heild sinni. Hér er verið að leggja fram litla brtt. við gildandi vegáætlun. Ég vil minna á að ekki ómerkari maður en Ólafur Jóhannesson hélt því fram í sölum Alþingis að ef breyting væri gerð á gildandi vegáætlun bæri samgrh. að leggja fram þáltill. til breytingar á gildandi vegáætlun. Þessi afstaða Ólafs Jóhannessonar var alveg ljós á sínum tíma. Hann lýsti þessu yfir af því tilefni að samgrh. á þeim tíma breytti vegáætlun og skar niður framkvæmdir sem Alþingi hafði áður ákveðið. Það liggur því alveg ljóst fyrir að það var mat Ólafs Jóhannessonar að málsmeðferð eins og sú sem hér er viðhöfð er í samræmi við gildandi hefðir og raunar óhjákvæmileg.
    Það liggur líka alveg ljóst fyrir að það er ekki nóg að þessi þáltill. sé borin fram til samþykktar heldur verður að breyta tölum fjárlaga með fjáraukalögum yfirstandandi árs í samræmi við þær þarfir og þau verkefni sem fjármununum er varið til. Þetta hvort tveggja liggur alveg ljóst fyrir og raunar furðulegt að menn sem hafa setið á Alþingi svo árum og kjördæmum skiptir og hafa farið með samgöngumál á Alþingi skuli ekki hafa kynnt sér kjarna þessa máls betur.