Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:44:28 (2056)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það fór svo að ég lauk ekki við að koma þeim atriðum öllum að sem ég hafði hugsað mér í fyrri ræðu minni. Síðan hafa bæst við ummæli sem kalla á umfjöllun svo ég sá mig tilneyddan til að taka til máls öðru sinni í þessari umræðu.
    Ég vil fyrst segja varðandi fullyrðingu hæstv. samgrh. um að það kosti um 100 millj. eða kannski meira að koma upp aðstöðu fyrir Fagranesið . . .   ( Samgrh.: Ég sagði þvert á móti tæplega 100 millj.) Tæplega 100 millj., segir hæstv. ráðherra. Ég vil gjarnan leggja fram aðrar upplýsingar sem ég hef undir höndum um það mál. Síðan verða menn að meta hvort réttara er. Djúpbáturinn, fyrirtækið sem sér um rekstur Fagraness, hefur lagt áherslu á það við hæstv. samgrh. að nýtt verði heimild í fjárlögum þessa árs til að koma upp ferjuaðstöðu bæði á Ísafirði og inni í Djúpi en hefur fengið heldur þungar undirtektir hjá ráðherranum, a.m.k. hefur sést lítið til lands í þeim verkum sem menn eru að biðja um að verði unnin. Í bréfi frá þessum aðila, dagsettu 21. ágúst sl., segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ferjuskipið sem hf. Djúpbáturinn keypti stendur nú í 46 millj. kr. eftir ýmsar lagfæringar. Þannig má ætla að heildarkostnaður við skipið og ferjubryggjuna verði varla yfir 100 millj. kr. sem verður að teljast mjög ódýrt miðað við það sem almennt gerist hérlendis.``
    Miðað við þessar upplýsingar er kostnaðurinn ekki nærri 100 millj. kr. heldur nærri 50 millj. Auðvitað skiptir máli að menn hafi staðreyndir í þessu máli á hreinu. Ég skal ekkert segja um það hverjar þær eru. Ég er aðeins að greina frá þeim upplýsingum sem mér hafa verið sendar og stangast á við upplýsingar hæstv. samgrh. Það er því ljóst að frekar þarf að líta á þetta mál en hlýða á orð hæstv. samgrh. um það.
    Þá vil ég einnig nefna af því að hér hefur verið sett fram sjónarmið sem er að mörgu leyti eðlilegt að ríkisstjórnin hafi gripið til þess að flýta framkvæmdum í vegagerð til að treysta atvinnuástandið í landinu. Það liggur auðvitað í augum uppi að það mun hjálpa til við það verk. En ég vil gjarnan benda á það sem ekki hefur komið fram í umræðunni að þar sem atvinnuástand er kannski bágbornara en víðast hvar annars staðar, á Suðurnesjum, er ekki að sjá í tillögu ríkisstjórnarinnar að miklu fé verði varið, af um 1.800 millj. kr., til að bæta úr atvinnuástandi. Ég hlýt því að spyrja hæstv. samgrh. því hann er einn hér til svara fyrir ríkisstjórnina eins og stendur: Eru fyrirhugaðar einhverjar aðrar ráðstafanir á þessu svæði þar sem atvinnuleysi er hvað mest til að bæta úr á öðrum sviðum en í samgöngumálum eða koma síðar tillögur í samgöngumálum sem lúta að því að draga úr atvinnuleysi á því svæði? Ég minni á að fimm þingmenn Sjálfstfl. hafa séð sig tilneydda, þrátt fyrir það að eiga samgrh. í þessari ríkisstjórn, að leggja fram sérstaka tillögu um vegaframkvæmdir í sínu kjördæmi.
    Ég vil líka koma að því atriði sem hv. 1. þm. Vesturl. nefndi fyrstur manna í umræðunni. Það er Skipaútgerð ríkisins og það mál. Eins og menn kannast við var það fyrirtæki lagt niður fyrr á þessu ári með sérstökum lögum og margir óttuðust að hagsmuna landsbyggðarinnar væri ekki gætt sem skyldi í þeim efnum og það mundi bitna á þeim byggðarlögum þannig að flutningskostnaður á vöru til þeirra mundi hækka. Þá töldu stjórnarliðar enga ástæðu til að óttast að slíkt mundi gerast í þessum málum. Ég vil gjarnan koma því að í þessari umræðu sem mönnum er kannski kunnugt um að því miður hefur þróun mála verið sú, og hún hefur verið nokkru hraðari en ég átti von á, að bæði skipafélögin sem sinna strandflutningum hér við land hafa dregið úr komum sínum í hinum dreifðu byggðum landsins. Nú er svo komið að sum byggðarlög njóta þess alls ekki að fá neinar skipakomur til sín. Ég minni á að þetta mál heyrir undir Vegagerð ríkisins samkvæmt nýlegri ákvörðun.
    Ég vil t.d. benda á staði eins og Bíldudal, Suðureyri og Árneshrepp á Ströndum svo ég telji upp þrjá staði. Þessir staðir búa við það að þeir fá ekki vörur til sín sjóleiðina heldur eru þær settar annars staðar á land og viðtakanda gert að greiða til viðbótar flutningskostnaði kostnað við að flytja vöruna frá þeim stað til síns heima.
    Þann 2. okt. gerði Fjórðungssamband Vestfirðinga þá samþykkt á fundi sínum, með leyfi forseta: ,, . . .  að skora á hæstv. samgrh. að hann semji við þar til bæran flutningsaðila að annast með fullnægjandi hætti vöruflutninga sjóleiðis til og frá Norðurfirði í Árneshreppi.`` Eftir að þessi samþykkt var gerð 2. okt. hafa, eins og ég gat um áður, tveir aðrir staðir misst skipakomur. Það eru Bíldudalur og Suðureyri. Hvað

hyggst hæstv. samgrh. gera til að tryggja jöfnuð í þessum efnum? Fyrst hv. 1. þm. Vesturl. varð fyrstur til að nefna þetta mál er ekki úr vegi að hann geri þingheimi grein fyrir afstöðu sinni til þess. Er það hans skoðun og ráðherrans að hver eigi að bera sinn bagga? Það er a.m.k. í ósamræmi við málflutning stjórnarliða fyrr á þessu ári. Eru menn að ganga á bak orða sinna í þessu efni eða ætla menn að tryggja þessa flutninga? Það væri fróðlegt að fá svar við því. Gætu menn sett það undir aðgerðir í flóabátum og ferjum?
    Ég vil líka að lokum, virðulegi forseti, nefna brúna yfir Gilsfjörð. Hv. 3. þm. Vestf. sagði að lánið sem verður tekið vegna brúar yfir Kúðafljót og aðrar flýtiframkvæmdir yrði ekki endurgreitt fyrr en búið væri að byggja brúna yfir Gilsfjörð, það hefði ekki áhrif. Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að staðfesta það að endurgreiðsla þessara lána muni ekki seinka framkvæmdum í brúargerð yfir Gilsfjörð? Ég vil minna á það að á síðasta kjörtímabili fyrir kosningar hétu allir þingmenn Vesturl. og Vestf. því að beita sér fyrir því að framkvæmdir við Gilsfjarðarbrú yrðu boðnar út strax á árinu 1993.