Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:57:41 (2059)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal): (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Út af Gilsfirði aðeins þetta eitt: Gert er ráð fyrir 511 millj. kr. til þessa verkefnis á öðru áætlunartímabili. Málin eru þannig. Það er ekki spurning um skoðun hv. þm. á því. Alþingi hefur einfaldlega ekki samþykkt að verja til þess verkefnis nema 71 millj. kr. en til þess þarf 582 millj. kr.
    Í öðru lagi er ekki von á því að ég hafi svarað fsp. hv. þm. um flóabáta þar sem ég var ekki að þeim kominn. Það liggur fyrir að það sparast milljón á dag fyrir ríkissjóð með því að leggja niður Skipaútgerð ríkisins. Það liggur jafnframt fyrir að vegna þeirra ráðstafana sem síðasta ríkisstjórn gerði í sambandi við flóabáta á síðasta kjörtímabili, mig minnir að kaupin á Herjólfi hafi verið í síðustu vikunni fyrir síðustu kosningar, er nú svo komið að styrkir til flóabáta munu á næstu árum fara upp í eitthvað á sjötta hundrað milljónir króna. Það var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að 330 millj. kr. mundu nægja. Nú er svo komið þegar búið er að fara yfir reikningana á nýjan leik að búist er við því að meðgjöfin með flóabátum verði nær hálfum milljarði króna á næsta ári. Ég skal ekki segja hvar á milli 400 og 500 millj. kr. en það liggur einhvers staðar þar. Auðvitað verða þessir peningar að dragast frá öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Fram hjá því er ekki hægt að komast.
    Í þriðja lagi hef ég greitt fyrir því að hægt sé að halda uppi samgöngum til Norðurfjarðar á þessu ári eins og áður hafði verið ráðgert af Samskipum. Um þetta er oddvita Norðurfjarðar kunnugt. Hann er í fullu sambandi við samgrn. og fulltrúa Vegagerðarinnar um þessi mál. Ástandið þar er því ekki eins og

hv. þm. vildi vera láta.