Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:01:05 (2061)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi Skipaútgerð ríkisins og þjónustuna við einstöku byggðarlög. Það hefur komið fram í máli hæstv. samgrh. hvernig þau mál hafa verið leyst varðandi Árneshrepp á Ströndum. Ég hef fengið þær upplýsingar nýverið varðandi Bíldudal alveg sérstaklega að þar muni þau mál leysast með þátttöku Eimskipafélags Íslands sem muni geta tryggt þá þjónustu sem verið hefur. Það er auðvitað kjarni þess máls sem við höfum verið að ræða hér að með flýtingu vegagerðar m.a. yfir Hálfdán milli Tálknafjarðar og Bíldudals verður auðveldara að sinna þessum byggðarlögum. Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni að það skuli hafa verið ráðist í að flýta þessum framkvæmdum því með þeim hætti er hægt að sinna þörfum íbúa þessa kjördæmis með skipulegri, skynsamlegri og ódýrari hætti.
    Það er alveg fráleitt eins og hv. 5. þm. Vestf. hefur verið að reyna að ýja að að eitthvað hafi komið fram sem bendir til þess að seinkun verði á fyrirhuguðum framkvæmdum yfir Gilsfjörð. Það er alveg fráleitt. Það er ekkert sem gefur honum tilefni til að álykta það nema síður sé. Ég hef þvert á móti verið að leiða að því rök að einmitt með tillögu ríkisstjórnarinnar um að flýta þessum vegaframkvæmdum verði hægt að hraða brúargerð yfir Gilsfjörð fremur en að hún tefjist. A.m.k. verð ég að segja að ef það er rétt sem ég las út úr ummælum hv. 5. þm. Vestf. að honum fyndist lítið fara til Reykjaneskjördæmis úr þessum pakka og hann vildi með öðrum orðum ganga inn í skiptireglu vegafjárins og taka peninga af öðrum kjördæmum til þess að leggja til Reykjaness til atvinnuskapandi framkvæmda, þá óttast ég hins vegar að það yrði til að hægja á einhverjum framkvæmdum úti á landi, svo sem á Vestfjörðum og þar á meðal Gilsfjarðarbrú.
    Ég styð hins vegar tillögu hæstv. ríkisstjórnar að því leyti að ég er fullkomlega sammála því að vitaskuld á að nota skiptiregluna milli kjördæmanna þegar verið er að skipta vegafénu.