Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:18:38 (2066)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta atriði í ræðu hv. 3 þm. Austurl. Fyrir það fyrsta er ekki verið að auka fé til vegamála heldur verið að flýta framkvæmdum. Það er því á engan hátt bættur upp sá niðurskurður sem núv. ríkisstjórn hefur staðið að og þar á meðal í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Til að hressa upp á minni hv. þm. um frammistöðu samgrh. Sjálfstfl. vil ég rifja upp viðtal við hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, í Morgunblaðinu 29. maí 1991 þegar hæstv. samgrh. tók sér það vald að skera niður fé til vegamála um 350 millj. Hæstv. samgrh. sjálfur komst að þeirri niðurstöðu áðan að samkvæmt tilvitnun í Ólaf heitinn Jóhannesson hefði það verið ólögmætt. Hv. þm. Matthías Bjarnason segir í viðtalinu, með leyfi forseta: Ég tel að það sé ekki ráðuneytis eða Vegagerðar að taka sér það bessaleyfi að skera niður framkvæmdir. Alþingi hefur samþykkt vegáætlun og þingmenn viðkomandi kjördæma skipt framkvæmdafénu á milli verkefna og ég tel að Alþingi eitt geti breytt þeirri ákvörðun.`` Hann segir enn fremur, virðulegi forseti, að lokum: ,,Það er ekki á það bætandi þegar ný ríkisstjórn sem maður vill af heilum hug styðja kemur og ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur.``