Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:00:37 (2075)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það má jafnan tíðindum sæta þegar hafnamál eru til umræðu á Alþingi og það gildir það sama um vegamál. Það er sannarlega ástæða til þess að fara vandlega yfir þau mál sem koma fyrir þingið og snerta þessa málaflokka sérstaklega. Það má segja að dagurinn í dag hafi verið sérstakur samgöngudagur í þinginu og fer vel á því.
    Það frv. til hafnalaga sem hér er til umræðu er lagt fram óbreytt frá því sem var á síðasta þingi. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. ráðherra skuli leggja frv. fram óbreytt og gefa þar með þinginu og þingnefndinni kost á því að ljúka þeirri vinnu sem hún hlýtur að hafa hafið á síðasta þingi við skoðun frv. Það hefði ekki verið eðlilegt að ráðherrann hefði lagt frv. fram núna í breyttu formi miðað við einhverja hugsanlega útkomu út úr þingstörfunum. Það er eðlilegra að frv. komi fram í þeirri mynd sem það var fyrst lagt fram í þannig að þingið geti lokið sínu starfi og lokið þeim störfum sem það hefur þegar hafið við að endurskoða hafnalögin.
    Það er ástæða til þess að vekja athygli á nokkrum frumvarpsákvæðunum sem hér eru til umræðu. Hér er lagt til í einni grein frv. að heimilað verði að stofnuð verði hafnasamlög. Það er nýmæli. Það verður í einlægni að spyrja þeirrar spurningar hvort með þessari heimild sé verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt að leggja hafnir á Íslandi niður. Það verður að spyrja þeirrar spurningar og við verðum að reyna að svara þeirri spurningu hvort þannig sé komið að leggja verði niður einhverjar hafnir á Íslandi. Hér er enginn að mótmæla því að ástæða sé til þess að efla samvinnu sveitarfélaga og ástæða til þess að efla samvinnu stofnana á vegum hins opinbera á landsbyggðinni eins og frekast er kostur. Það hefur verið gert mjög mikið átak í vegamálum á undanförnum árum og þessi ríkisstjórn virðist ætla að vinna sér sérstakan sess

í Íslandssögunni með því að gera sérstakt átak, meira en aðrar ríkisstjórnir hafa gert á undanförnum árum ef ekki áratugum með því að standa vel að verki í þeim efnum eins og hér hefur greinilega komið fram í umræðum í dag. En verða samgöngubæturnar til þess að einhverjar hafnir á landsbyggðinni hætta að vera nauðsynlegar? Er verið að heimila stofnun hafnasamlaga til þess að opna fyrir möguleika á því að leggja einhverjar hafnir niður? Hér vil ég að staðið verði rækilega á verði vegna þess að við vitum það gjörla sem eigum heima í smáþorpum úti á landi að höfnin er hjarta byggðarlagsins. Höfnin er hjarta þorpsins. ( ÓÞÞ: Er verið að tala gegn ráðherranum?) Það er ekki verið að tala gegn ráðherranum, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Hæstv. ráðherra hefur fullan skilning á þessu enda þekkir hæstv. samgrh. betur til í dreifðustu byggðum landsins en margir aðrir þingmenn. Það sem ég er að gera með þessum orðum er að skerpa skilning hæstv. ráðherra og skerpa skilning okkar hv. þm. ( Gripið fram í: Ekki veitir af.) til þess að standa vel á verði.
    Ég vil líka vekja athygli á greinum í frv. sem eru einmitt settar fram til þess að verja rétt hafna í smæstu byggðarlögunum. Það er 28. gr. frv. og síðan 30.--37. gr. frv. sem fjalla annars vegar um heimildir til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem ekki hafa nægar tekjur til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum vegna styrkhæfra hafnarframkvæmda og svo hins vegar ákvæðin er fjalla um það að efla Hafnabótasjóð.
    Ég skil það svo að þó að verið sé að breyta hér eða leggja til að breytt verði hlutfalli kostnaðar ríkissjóðs við byggingu hafna eigi að nýta þessar greinar sérstaklega til þess að tryggja að smæstu byggðum verði áfram gert kleift að reka sínar hafnir og standa undir þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru. Þó er rétt að geta þess að það hefur víða verið gert mikið átak í hafnargerð á undanförnum árum. Ekki lít ég svo á að það sé búið að ljúka hafnargerð á öllum stöðum og kannski hvergi. Þess vegna verður enn og aftur að ítreka það að þessar greinar eru settar sérstaklega fram í ljósi þess skilnings sem hæstv. samgrh. hefur, að verja rétt smæstu hafnanna.
    Það vekur sannarlega athygli í ljósi allra þeirra samgöngubóta sem hafa orðið í landinu á undanförnum árum að þar sem samgöngurnar eru bestar, hér á höfuðborgarsvæðinu, virðist samvinna hafnarsjóða ekkert hafa aukist að ráði. Það vekur sannarlega athygli. Ef við ætlum að tala um það að sameina hafnir væri náttúrlega réttast að byrja þar sem samgöngurnar eru greiðastar og samgöngurnar eru greiðastar á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mundi ég vilja sjá hæstv. ráðherra hafa forustu um að greiða fyrir sameiningu hafna hugsanlega með viðræðum á höfuðborgarsvæðinu á milli t.d. Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Ég nefni ekki hafnirnar á Suðurnesjum þar sem ég veit að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vill leggja allt af mörkum þó ég muni ekki styðja hann í þeirri viðleitni, ef sú tillaga kæmi fram, að þar yrði bara ein höfn sem stæði eftir fyrir allt svæðið. Ekki trúi ég því að það sé hans skilningur en hann kemur kannski til með að skýra það betur út á eftir.
    Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til þess að hafa varnaðarorð í þessari umræðu vegna þess að byggðin á víða í vök að verjast í landinu. Í ljósi umræðna sem hér hafa farið fram á undanförnum mánuðum og árum um það að sameina sveitarfélög kemur ein spurning upp: Á að sameina hafnirnar líka? Ef það er tillagan sem liggur fyrir okkur hér að stofna hafnasamlög til þess að stíga fyrsta skrefið í þá átt hef ég ekki þann skilning á hafnasamlögum er felst í þeirri hugsun, þvert á móti. Ég lít svo á að með stofnun hafnasamlaga séum við að koma á fót samvinnu sem mun efla og auka hagræðingu, bæta nýtingu hafnanna og efla framkvæmdir eins og kostur er.
    Ég trúi því og treysti að hv. þingnefnd muni taka þetta mál til rækilegrar skoðunar og sérstaklega skoða byggðaþáttinn, rétt hinna smæstu hafna og rétt hinna smæstu sveitarfélaga. E.t.v. á byggðin þar í mestri vök að verjast. Ég trú því að hv. þingnefnd taki mark á þessum orðum og taki tillit til þeirra eins og gert hefur verið allt fram til þessa. Ég trúi því líka að hæstv. ráðherra sé sömu skoðunar og hann staðfesti þá skoðun á eftir.