Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:18:28 (2077)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að menn hafa kannski ekki gert neinar stórvægilegar athugasemdir við frv. Þó held ég að ég hafi skilið menn rétt í því að þeir geyma sér allan rétt til þess að fjalla um þetta mál í nefnd. Þetta mál hefur ekki legið lengi á borðum þingmanna til skoðunar. Ég segi a.m.k. fyrir mig að ég áskil mér allan rétt til þess að fjalla allítarlega um frv. og koma þeim ábendingum sem ég tel nauðsynlegar á framfæri og mun gera það í þeirri nefnd sem þetta mál fer til.
    Hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði einnig að Hafnabótasjóður hefði haft takmarkaðar tekjur. Ég spyr: Ætli það muni ekki vera enn svo þrátt fyrir þetta frv.? Ætli það muni ekki vera sannara í málinu að ekki sé svo séð fyrir þörfum hans nú.
    Það eru nokkur atriði í sambandi við frv. sem mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra um. Í athugasemdum við 8. gr. frv. segir: ,,Jafnframt er höfnum heimilað að gerast hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra, svo sem fiskmörkuðum...``
    Nú spyr ég: Er það ekki rétt skilið að eigendur hafnanna gætu, ef þetta mál nær fram, orðið hluthafar í útgerðarfyrirtækjum, í verslanafyrirtækjum og í veiðarfæragerð? Ég veit ekki með olíufélögin. Ég held að hér sé verið að opna býsna víðfeðmt svið. ( Gripið fram í: Eins og Sambandið.) Já, mér sýnist það og væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra sér þetta fyrir sér. Mér finnst dyrnar opnaðar hér vel upp á hálfa gátt.
    Hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugur Stefánsson, vék aðeins að hafnasamlögunum og hafði áhyggjur af því að kannski væri verið að hreyfa þeirri hugmynd að að leggja ætti niður eitthvað af höfnum á minni stöðum. Ég verð að segja að ég á bágt með að trúa því að það sé beint ætlan nema, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að vilji sé hjá heimamönnum að gera slíkt. En vegna varnaðarorða hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar langar mig til þess að spyrja: Er ekki alveg ljóst að þetta er stjfrv. sem hér er lagt fram? Hefur Alþfl. ekki lagt blessun sína yfir þetta mál eða er hér um misprentun að ræða? Hefur Alþfl. ekki samþykkt að leggja þetta fram? Ég sé hvergi neina fyrirvara á því eða kannski er það eins og í öðrum málum að Sjálfstfl. telur sig ekki þurfa að spyrja Alþfl. hvernig farið er með stjórn mála í landinu í dag. Það kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir að þingmaðurinn skuli varpa þessu fram hér.
    Einnig langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við vörugjaldið. Er það ekki alveg rétt skilið, hæstv. ráðherra, að í mörgum tilfellum munu íbúar t.d. á Austurlandi þurfa að borga þetta

vörugjald þrefalt? Í a.m.k. sumum tilfellum gætu þeir þurft að borga þetta vörugjald þrefalt. Getum við ekki verið sammála um það, hæstv. ráðherra samgöngumála, sem er fulltrúi dreifbýliskjördæmis, að hér sé hallað á landsbyggðina enn og aftur? Ég sé það að menn velta vöngum yfir því og vilja sjálfsagt spyrja: Hvað er þingmaðurinn að fara?
    Mörg dæmi eru um að vörum sem koma frá útlöndum er skipað upp í Hafnarfirði og þá leggst vörugjaldið á. Þær eru keyrðar til Reykjavíkur og settar þar um borð í skip sem fer með þær út á land. Þar kemur vörugjaldið á. Síðan er vörunni skipað upp austur á Reyðarfirði og þar kemur vörugjaldið á. Er það ekki rétt skilið, hæstv. samgrh., að við sem úti á landsbyggðinni búum megum búast við því að þurfa að borga þetta vörugjald á þennan hátt?
    Einhver ágætur þingmaður vék áðan að 28. gr. um að létta greiðslubyrði af þeim höfnum sem illa standa. Í greininni stendur: ,,Ráðherra skal gera tillögu til fjárlaganefndar og Alþingis um skiptingu fjárins og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum . . . `` Getur ekki hæstv. ráðherra samgöngumála verið mér sammála um að hér sé eðlilegt að samgn. þingsins fjalli um þetta mál? Hún fái að fjalla um þessi tilvik sem svo stendur á um.
    Ég þarf ekki að segja meira. Ég gæti sagt ýmislegt fleira en ég þarf ekki að lengja fundinn vegna þess að ég á sæti í samgn. og gefst þar betra tækifæri til þess að fjalla um þessi mál.