Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:28:01 (2080)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar áðan um hvort hér væri verið að fara inn á þá braut að leggja niður einhverjar hafnir langar mig til að benda honum á að í 3. mgr. 29. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild.``
    Ég tel því að áhyggjur hans af því að hér sé hugsanlega verið að stíga fyrsta skrefið til að skoða það séu á rökum reistar á þessari málsgrein og þarf trúlega að skoða nánar í framhaldi af því.
    Ég ætla að bæta við einni spurningu til hæstv. samgrh. Hún er vegna 22. gr. Mér yfirsást það hér áðan. Í 3. mgr. segir, með leyfi forseta:     ,,Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu að jafnaði unnar samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð telst ekki muni gefa góða raun er heimilt að fenginni umsögn Hafnamálastofnunar að víkja frá útboði.``
    Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann að þessi grein muni geta staðist samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, ef hann verður samþykktur hér, þ.e. að hægt sé að meta það hvort útboð teljist muni gefa góða raun eða ekki og falla þá frá útboði? Það er ekki verið að miða við ákveðna upphæð eins og útboð samkvæmt EES-samningnum eiga að vera háð. Hér segir aðeins að ef útboð telst ekki muni gefa góða raun sé heimilt að víkja frá útboði. Ég vil spyrja hann hvort hann telji þetta ákvæði geta staðist samninginn um Evrópskt efnahagssvæði verði hann að veruleika.