Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:46:31 (2082)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í ræðu hv. 5. þm. Vestf. kom fram að hann undraðist að minn heimabær, Stykkishólmur, skuli ekki vera í hafnasamlagi og tengdi það setu minni í nefndinni sem vann að samningu frv. og því að ég hafði verið bæjarstjóri þar í 17 ár. Það er ekki svo heldur tengist það allt öðrum hlutum, landafræði, vegalengd, samgöngubótum og öðrum þvílíkum hlutum. Í starfi nefndarinnar var ekki tekið neitt tillit til persónulegra aðstæðna heldur fyrst og fremst staðreynda um byggðina í landinu, samgöngur og rekstur hafnanna. Hins vegar get ég frætt þingmanninn á því að mín gamla fæðingarbyggð, Ólafsvík, tengist hugsanlegu hafnasamlagi ef það mætti verða til þess að hugga hann örlítið.
    Ég vil vekja athygli á því sem kom fram hér hjá þingmanninum. Hann er að gagnrýna það sem kemur fram í tillögum sveitarfélaganefndar. Ég vil vekja athygli á því að hv. 5. þm. Vestf. sat í þessari sveitarfélaganefnd og ber ábyrgð með sínum hætti á undirbúningsstarfi nefndarinnar og þeirri faglegu umfjöllun sem þar hefur farið fram þó að hann kysi síðan að hlaupa frá þeirri tillögugerð og hafa uppi sérbókanir og sérálit eftir að hafa tekið þátt í öllu starfi nefndarinnar. Ég held að það sé nauðsynlegt að vekja athygli á þessu í tengslum við þau atriði sem hv. þm. dró hér fram og reyndi að gera tortryggileg. ( Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. þm. á því að tíminn er búinn.)