Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:48:59 (2083)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið góðar og gildar skýringar hv. 1. þm. Vesturl. á því að Stykkishólmur er þannig landfræðilega í sveit settur að honum verður ekki komið með neinu móti í samband við aðrar hafnir, ekki einu sinni nálægar hafnir eins og Grundarfjörð. En ég held áfram að vera dálítið undrandi á því að þetta skuli ekki vera hægt þegar menn eru svo snjallir að geta t.d. sett saman í eitt hafnasamlag hafnirnar á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, Ísafirði og Súðavík. Það kalla ég mikið afrek að geta náð þessu fram en finna ekki leiðir á Snæfellsnesinu. En ég tek að sjálfsögðu skýringar þingmannsins góðar og gildar.
    Hins vegar vildi ég segja varðandi ummæli hans um störf mín í sveitarfélaganefndinni að maður ber ekki ábyrgð á tillögum sem maður stendur ekki að. Auðvitað hefur starf mitt í nefndinni verið fólgið í því að halda fram sjónarmiðum landsbyggðarinnar gegn yfirþyrmandi sjónarmiðum hagfræðinnar um hagkvæmni stærðarinnar. Ég hef að sjálfsögðu lagt mig fram um það í nefndinni að halda fram byggðasjónarmiðum og hagsmunum hinna dreifðu byggða og leitast við að beina starfi nefndarinnar inn á þá braut að þar verði sem mest tillit tekið til þeirra þannig að útkoman verði tillögur sem maður hefur trú á að viðhaldi samfelldri byggð um land allt og styrki hana. Því miður eru niðurstöðurnar ekki þannig að ég hafi trú á því og því kaus ég að standa ekki að þeim heldur hafa fremur uppi þetta sjónarmið og reyna að koma því á framfæri og beina þessari umræðu um sameiningu sveitarfélaga á skaplegri brautir.