Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:53:34 (2085)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ummæli hv. þm. Kristins Gunnarssonar hér áðan. Vegna þeirra sem hugsanlega fylgjast með því sem gerist í þessu húsi og vilja hafa það sem sannast er í hverju máli finnst mér nauðsynlegt að taka það fram að það eru alls engar áætlanir og hugmyndir um að byggja höfn á Blönduósi fyrir hundruð milljóna króna. Það eru alls engin áform uppi um það. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er höfn á Blönduósi í dag. Þær hugmyndir sem eru uppi eru um að byggja grjótvarnargarð, skjólgarð til að skýla skipum og skapa þeim aðstöðu til þess að hafna sig á Blönduósi í dag. Hér eru menn að tala um allt of háar upphæðir að orða það svo að um hundruð milljóna króna sé að ræða. Það er einfaldlega ekki rétt.
    Hins vegar hefur þessi umræða um höfn á Blönduósi gengið býsna lengi hér í sölum og menn gert úr því mikið mál. Við gætum farið yfir sviðið og velt fyrir okkur höfnum í Norðurlandskjördæmi vestra og svo annars staðar í öðrum kjördæmum og gert þar samanburð. Við þolum alveg á Norðurlandi vestra að gera slíkt. Ég hef lengi velt því fyrir mér þegar þessi umræða hefur farið hér fram hver það er sem ætlar að kveða upp þann dóm að banna íbúum á Blönduósi að sækja rétt sinn til hafsins eins og aðrir hafa. Ég trúi því ekki að það komi frá þingmanni af Vestfjörðum sem þekkir svo gjörla til. Ég veit ekki hver það er hér sem ætlar að setja sig í það dómarasæti að banna þeim það. Blönduós er útgerðarstaður í dag og hefur verið í mörg ár. Þar er rekið öflugt fiskvinnslufyrirtæki. Ég sé ekki af hverju þessi málflutningur er hafður hér og hvers vegna menn tala svo ógætilega um þessi mál.