Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 17:56:06 (2086)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað umhugsunarefni þegar verið er að vinna á þeim nótum að koma málum þannig fyrir að menn komist af með minna fé til hafna en verið hefur, m.a. með því leggja fram hugmyndir um hafnasamlag sem ég tók sérstaklega fram í minni ræðu að ég tæki ekki illa í að skoða, ef uppi eru áform um að fjölga höfnum frá því sem nú er og verja verulegum peningum í að byggja upp nýja höfn þegar það liggur fyrir að fyrir hendi er önnur höfn sem getur þjónað því hlutverki og samgöngur mjög greiðar á milli og fjarlægðir ekki miklar.
    Þær framkvæmdir sem ég var með í huga þingmanninum til upplýsingar eru 227 metra brimvarnargarður og viðlegukantur upp á 80 metra. Hér er um að ræða framkvæmdir fyrir 200 millj. kr. og ég veit ekki betur en að þessar framkvæmdir séu þegar komnar inn í drög að hafnamálaáætlun fyrir næstu fjögur ár. Ég vil gjarnan fá það upplýst ef ég fer með rangt mál í þeim efnum. Ég vil gjarnan fá hæstv. samgrh. til að svara því og þess vegna beindi ég til hans spurningu í minni ræðu hvernig það samræmdist markmiði frv. til nýrra hafnalaga og hvernig þessi framkvæmd, ef menn ætla á annað borð að ráðast í hana, fer saman við frv. Ég fæ það ekki til að ganga upp.