Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:25:09 (2092)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var gott framtak hjá hv. 14. þm. Reykv., Guðrúnu Helgadóttur, að fá atbeina Ríkisendurskoðunar til að fá hæstv. samgrh. til að fara að lögum svo að linnti einhverju kjördæmapotinu í verkum ráðherrans sem hafa verið nokkuð yfirþyrmandi og meiri en menn hafa séð dæmi um af hálfu ráðherra í seinni tíð. Auðvitað þurfa ráðherrar að hafa lagaheimildir fyrir því sem þeir hyggjast hrinda í framkvæmd.
    Hvað varðar heimild um ferjubryggju í Ísafjarðardjúpi, kemur fram nýr skilningur af hálfu hæstv. samgrh. núna á haustdögum að heimild sé ekki til framkvæmdar. Þann skilning hafði ráðuneytið ekki uppi fyrr á þessu ári þegar verið var að knýja heimamenn í Nauteyrarhreppi til þess að samþykkja vilja ráðuneytisins um hvar bryggjan ætti að vera. Lá mikið á að þeir afgreiddu málið. Fyrst hæstv. ráðherra leggur þennan skilning í málið nú verður ekkert við það ráðið. Þeir verða að eiga það við sig sem ekki standa við orð sín í þessum efnum.
    Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé búinn að semja við Ísafjarðarkaupstað og hreppsnefnd Nauteyrarhrepps um kostnaðarskiptinguna sem honum er falið að gera. Er það búið og hver er hún?
    Hvað varðar heimildir í fjárlögum að öðru leyti vil ég minna á heimild í 6. gr., lið 2.1, þar sem

heimilt er að stofna til tímabundins yfirdráttar af viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum til þess að mæta útgjöldum vegna 6. gr. Ég sé því ekki annað en að ráðherra hafi allar þær heimildir sem hann þurfi í þessu máli.