Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:32:25 (2096)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. samgrh. skildi ekki ótta minn, enda sagði hv. 5. þm. Austurl. áðan að það þyrfti að skerpa skilning hæstv. ráðherra. Ég tek undir það og vonast til að hv. 5. þm. Austurl. verði eitthvað ágengt í þeirri iðju sinni. Að sjálfsögðu er ekki sama hvar höfnin er sett og ég held að öllum öðrum sé ljóst að Reykjavíkurhöfn hefur þá lykilaðstöðu að í gegnum hana fara fram meginflutningar bæði að og frá landinu. Tekjumöguleikar þar eru því meiri en nokkurs staðar annars staðar. Ég held að okkur sé líka ljóst að þeir sem reka hlutafélög hugsa fyrst og fremst um hagsmuni eigendanna, að skila þeim sem mestum arði af því fjármagni sem þeir leggja í það. Það er þeirra skylda. Því muni það vera það sjónarmið sem ráði rekstri hafnanna. Miðað við þá aðstöðu sem t.d. Reykjavíkurhöfn hefur held ég að öllum sé ljóst að þegar það er í valdi hafnarstjórnarinnar sjálfrar að ákveða gjöldin eru það býsna tryggar tekjur sem þar er hægt að hafa.