Eftirlit með skipum

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 18:39:40 (2099)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er enn einu sinni verið að ræða um frv. sem lagt var fram á síðasta þingi og hlaut þó nokkra umfjöllun í hv. samgn. Mjög margar umsagnir bárust um frv. Margt í því er til bóta og ég ætla ekki að fara yfir öll þau atriði sem þar komu fram. Við munum fjalla nánar um það í hv. samgn. þegar frv. kemur þangað aftur.
    Ég ætla þó aðeins að nefna örfá atriði sem komu fram í þessum athugasemdum og það hef ég áður gagnrýnt í öðrum frumvarpsdrögum á hinu háa Alþingi. Í 1. gr. segir:
    ,,Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að lög þessi gildi að hluta eða öllu leyti fyrir erlend skip . . .  ``
    Við þetta komu athugasemdir og við fleiri staði í frv. þar sem vitnað er í þau ákvæði að ráðherra geti með reglugerð ákveðið eitt og annað í sambandi við þessi lög og í sambandi við búnað, öryggi skipa

og fleira gera hagsmunasamtök eins og Sjómannasambandið, Farmanna- og fiskimannasambandið og fleiri þær athugasemdir að eðlilegra sé að þetta standi í lögunum en að vísað sé í reglugerðir sem ráðherra geti sett. Í því sambandi er t.d. nefnt að í fyrri lögum sé þetta sums staðar tiltekið en núna sé það numið brott og í staðinn sett ákvæði um að ráðherra geti ákveðið þessa hluti í reglugerð.
    Ég hef gagnrýnt það áður að mér finnst of mikið gert af því að færa ráðherrum það vald að setja reglugerðir um ýmislegt sem ég tel að ætti frekar að standa í lögum.
    Það er líka ágreiningur um það hvort taka eigi út úr núgildandi lögum ákvæði um hámarksaldur skipa sem keypt eru til landsins. Þar eru uppi ýmis sjónarmið, eftir því hvort um er að ræða sjómannasamböndin eða útgerðaraðilana. Það mál þarf því að skoða mjög vel. Þar stangast greinilega á hagsmunir.
    Eins og ég sagði hefur frv. hlotið mjög góða skoðun. Það var búið að senda það til umsagnar ýmissa aðila og verður örugglega farið nánar yfir þau atriði sem frá þeim komu, þar á meðal það sem hér er lagt til um siglingadóm sem eru breytingar frá fyrri lögum. Ég ætla ekki að ræða það frekar núna til þess að lengja ekki umræður um frv. Mér sýnist að farið sé að fækka í þingsal og ekki tilgangur að kynna þetta mál frekar fyrir þingheimi.