Ríkismat sjávarafurða

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 14:02:30 (2106)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Úr því sem komið er er e.t.v. ekki miklu við umræðuna að bæta. Aðalákvörðunin var tekin þegar ákveðið var að stofna Fiskistofu. Sú umræða sem þá fór fram var sú grundvallarumræða sem þurfti að fara fram og ég er ekki sátt við þá niðurstöðu sem þar varð því miður. Ég tel að þrátt fyrir röksemdir sem fram komu í þeirri umræðu hafi ákvörðunin sem tekin var ekki verið sú besta. En reynslan verður að skera úr um hvort þetta muni reynast viðunandi. Vissulega hafa verið sniðnir ákveðnir hnökrar af þeim frv. sem fylgdu í kjölfarið. Kannski er best að búið er að ganga frá því mjög skýrt og skilmerkilega að ábyrgð á eftirliti með sjávarafurðum er hjá opinberum aðilum. Þetta varð að komast á hreint áður en þessi fylgifrv. voru afgreidd og það komst á hreint.
    Hér erum við hins vegar að fjalla um aðra hlið málsins en það er stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða. Eftir stofnun Fiskistofunnar má segja að þetta sé alveg eins eðlileg afgreiðsla eða framhald og hver önnur. Ég hef rökstutt það áður og ætla ekki að endurtaka það í löngu máli að ég tel að þessi milliliður, skoðunarstofurnar, sé yfirleitt óþarfur. Þessi þjónusta gæti verið góð sem möguleiki fyrir þá sem ekki hafa bolmagn til að byggja upp öflugt innra eftirlit en þessi skoðunarstofumilliliður er meira og minna óþarfur. Ábyrgðin er hjá ríkinu, eftirlitið er hjá fyrirtækjunum og skoðunarstofurnar eru milliliður sem hangir meira og minna í lausu lofti. Breytingartillögur sem fluttar hafa verið varðandi meðferð sjávarafurða hafa staðfest að í rauninni er svo komið að þessar skoðunarstofur eru viðurkenndur milliliður.
    Hver þróunin verður skal ég ekki spá um. Hún gæti orðið vegna formsins sú að hér mundu byggjast upp öflugar skoðunarstofur og innra eftirlit fyrirtækja yrði þá meira og minna í höndum þeirra. Ég er ekki viss um að það sé æskilegasta þróunin og ég er alls ekki viss um að það sé hagkvæmasta þróunin. En það virðist hvort eð er ekki verið að leita að því.
    Varðandi Ríkismat sjávarafurða virðist þetta vera einhvers konar lending eða niðurstaða að stofna hlutafélag um Ríkismatið og gera það að skoðunarstofu. Ég er út af fyrir sig ekki sérlega sátt við það en einhvern veginn verður að nýta þá krafta sem þar eru og þetta er kannski ein leiðin. Það virðist ekki vera pláss fyrir alla þá sem unnu hjá Ríkismati sjávarafurða hjá Fiskistofu. Einhverjir fara á biðlaun og það út af fyrir sig er umdeilanlegt mál eins og hér hefur fram komið.
    Ég hef líka efasemdir um það að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar einfaldlega vegna þess að mér sýnist ekki að ríkisstjórnin hafi sýnt neitt ýkja mikla skynsemi í öllu þessu fiskistofumáli og afleiðingum þess. Ég er því ekki alveg viss um að það væri besti staðurinn fyrir frv. Í raun stöndum við hér frammi fyrir orðnum hlut og eftir því sem þessi þróun verður verðum við að vona að það muni nást bæði hagkvæmni og öruggt mat og eftirlit með sjávarafurðum. Það er það sem skiptir okkur máli. Vissulega væri það kostur ef þetta næðist á hinn hagkvæmasta hátt. Um það hef ég verulegar efasemdir og ég sé ekki að það sé sáluhjálparatriði hvort það er hlutafélag eða eitthvert annað form á því sem tekur við núna af Ríkismati sjávarafurða og hvort skoðunarstofur munu verða það sem þeim var upphaflega ætlað. Ég mun því ekki og hef ekki áhuga á því að taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Mér finnst það hafa farið út á braut sem ég er ekki sátt við. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að leggja stein í götu afgreiðslu málsins. Það stendur í nál. meiri hlutans að ég hafi setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi. Það er rétt. Það stendur hins vegar ekki að ég sé samþykk þessu áliti og ég vil einnig að það komi skýrt fram hér í umræðunni.
    Ég sé því ekki annan kost vænni en að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins vegna þess að mér þykir að hér sé mikið af vafasömum atriðum sem því miður hefur ekki verið greitt úr þrátt fyrir mjög ítarlega umfjöllun.