Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 14:21:17 (2109)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er gamall kunningi kominn til meðferðar þingsins enn og einu sinni en það er frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Frv. svipaðs eðlis hefur verið lagt fram á þingi af og til allt frá árinu 1984 en þáv. iðnrh., Sverrir Hermannsson, lagði það frv. fram. Það var fellt í efri deild Alþingis vorið 1985. Árið 1987 var samið nýtt frv. af Friðriki Sophussyni, þáv. iðnrh. Það frv. var lagt fram á þingi árið 1988 og 1989 en fékk eigi afgreiðslu.
    Þetta frv., sem hæstv. núv. iðnrh. Jón Sigurðsson lagði fyrir 115. löggjafarþing, er einu sinni enn komið til meðferðar á 116. löggjafarþingi. Ég tek það fram að frá því að þetta frv. var lagt fram fyrst hefur það tekið miklum breytingum og allt breytingum til bóta.
    Að breyta ríkisreknu fyrirtæki í hlutafélag er eitt og að selja hlutafé í slíku fyrirtæki er annað. Ljóst er að með þessum breytingum vakir ekkert annað en sala fyrir hæstv. ríkisstjórn. Það hefur komið fram í ræðu og riti æ ofan í æ hjá hæstv. ráðherrum og er reyndar á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. sagði t.d. í fyrrasumar að áætlanir fjárlaga hefðu ekki staðist vegna þess að um sölu Sementsverksmiðjunnar var ekki að ræða, vegna þess að breytingin á lögum um Sementsverksmiðju ríkisins komst ekki í gegnum þingið. Hann taldi að þar hefði ríkissjóður misst stóran spón úr aski sínum.
    Hæstv. umhvrh. sagði einnig orðrétt í umræðunni um þetta mál á Alþingi í fyrra, með leyfi forseta: ,,Það er einkennileg tímaskekkja þegar kommúnisminn um gjörvalla Austur-Evrópu er hruninn þá skuli talsmenn þessa sjónarmiðs koma hér í ræðustól og predika á hinu háa Alþingi að það sé sáluhjálparatriði að ríkið standi í stórfelldum fyrirtækjarekstri.``
    Þessi tvö ummæli sem ég hef vitnað til sýna svo ekki verður um villst að það er algjört sáluhjálparatriði hjá hæstv. ríkisstjórn að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag til að geta selt hana og því er ekki lengur hægt að aðskilja þessi tvö mál, hlutafélagsformið, sem ég tel á margan hátt nútímalegra og betra rekstrarform og miklu hagkvæmara fyrir stjórnendur fyrirtækisins, og söluna sem er gerð auðveldari með breytingu í hlutafélagsform.
    Ég tel hugmyndir um sölu þessa ágæta fyrirtækis algjöra tímaskekkju þar sem Sementsverksmiðjan er í eðli sínu einokunarfyrirtæki. Ekkert annað íslenskt fyrirtæki framleiðir sement og þrátt fyrir að innflutningur hafi verið gefinn frjáls 1975 eftir inngöngu í EFTA njótum við fjarlægðarverndar. Því verður ekki á móti mælt enda hefur innflutningur á sementi verið mjög óverulegur. Það kemur einmitt fram í grg. með frv. um Sementsverksmiðjuna. Það er aðallega borgarsjóður Reykjavíkur sem hefur keypt sement erlendis frá og mér skilst að í ráðhússhöllinni sé aðallega innflutt sement. Það hefur ekki verið talið mikilvægt að styðja íslenskt þegar sú ágæta höll var byggð.
    Framleiðsla á sementi tengist mjög öðru fyrirtæki sem íslenska ríkið á stóran hlut í en það er Járnblendifélagið á Grundartanga. Kísilryk frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hefur verið blandað saman við sement allt frá 1980 sem bætir verulega gæði sementsins, eins og segir í athugasemd við lagafrv. þetta. Ég vil taka það fram að þessi blöndun er orðin allt að því helmingur og er því kísilrykið frá Grundartanga orðinn stór þáttur í framleiðslu sements.
    Ég vitna beint í grg. frv.:
    ,,Um 1980 byrjaði Sementsverksmiðjan blöndun ryks frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga í allt sement, en rykið er síað úr útblæstri verksmiðjunnar. Ryk þetta er tvisvar sinnnum virkara gegn alkalíþenslu en líparít og bætir auk þess fleiri eiginleika steinsteypunnar. Járnblendifélagið og Sementsverksmiðja ríkisins reka og eiga í sameiningu fyrirtækið Sérsteypuna sf. sem sinnt hefur ýmsum þróunarverkefnum er miða að því að auka notkunarsvið steinsteypu. Erlendis hefur orðið mikil þróun á því sviði á seinustu árum.``
    Það eru tvö fyrirtæki í eigu ríkisins sem vinna mjög náið saman. En af hverju hlutafélagsform um verksmiðjuna? Hæstv. utanrrh., sem mælti fyrir frv., kom inn á ýmis rök og þau rök sem hann kom inn á eru mörg hver ekki í gildi enn þá. Alla vega ekki ef fram fer sem horfir.
    Það hefur verið talað um að eðlilegt sé að Sementsverksmiðja ríkisins greiði aðstöðugjald eins og önnur fyrirtæki en fyrirtæki í eigu ríkisins greiða að sjálfsögðu landsútsvar. Nú er fyrirhugað að fella niður aðstöðugjaldið almennt svo þessi rök eru þar af leiðandi fallin úr gildi. Hlutur verksmiðjunnar í landsútsvari er í kringum 10 millj. og skiptist þannig að bæjarsjóður Akraness fær um fjórðung en að öðru leyti deilist útsvarið til annarra sveitarfélaga. Ef um aðstöðugjald væri að ræða fengi bæjarsjóður Akraness um 7--8 millj. eins og hæstv. utanrrh. gat réttilega. Hann taldi mikilvægt fyrir bæjarsjóð að fá þessar auknu tekjur en gleymdi að geta þess, og þess er heldur ekki getið í grg. með frv., að landsútsvar er ekki með í dæminu þegar jöfnunarframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er reiknað úr. Fyrir bæjarsjóð Akraness skiptir þetta engu máli tekjulega séð vegna þess að bæjarsjóði er bætt þetta upp með jöfnunarframlagi. Tekjulega séð bætir þetta ekkert hag Akranessbæjar eins og maður gæti ætlað þegar grg. frv. er lesin.
    Þessa dagana er ótrygg atvinna það sem allir hræðast mest og það má ekki hræra svo í vel reknu fyrirtæki eins og Sementsverksmiðju ríkisins vegna einhverrar trúarkreddu um einkavæðingu að starfsmönnum sé á einhvern hátt sköpuð ótrygg vinna vegna breytts rekstrarforms. Ef fyrirtæki eins og Sementsverksmiðja ríkisins væri á einhvern hátt byrði á ríkissjóði horfði málið allt öðruvísi við. Ríkissjóður hefur sem betur fer aldrei þurft að leggja krónu í þetta fyrirtæki en aftur á móti hefur hæstv. ríkisstjórn tekið þá ákvörðun núna í þeim mikla samdrætti sem almennt er í þjóðfélaginu og kemur að sjálfsögðu niður á fyrirtækinu með minnkandi sölu sements að taka arð úr fyrirtækinu. Fyrirtækinu er nú ætlað að greiða 2% af ávöxtun á eigin fé, þ.e. 15 millj. kr. Á þessu ári á Sementsverksmiðja ríkisins að greiða 15 millj. kr. arð til ríkissjóðs á sama tíma og mikill samdráttur er í sementssölu.
    Mér finnst ástæða til að minnast á þetta við umræðuna um Sementsverksmiðjuna vegna þess að þetta verður auðvitað þungur baggi á Sementsverksmiðjuna. Í fjárlagafrv. er talað um að þeir baggar sem ríkið er að leggja á Sementsverksmiðjuna núna muni ekki hækka sementsverð. Ég sé ekki almennilega hvernig hægt er að reikna það út þrátt fyrir að ég viti að unnið er að því af fullum krafti af forráðamönnum Sementsverksmiðjunnar að draga saman seglin og spara eins og mögulegt er í mannahaldi og öðrum rekstri þannig að um hækkun á sementi verði ekki að ræða.
    Hvað stendur svo eftir? Af hverju erum við að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag? Það sem eftir stendur er aukið svigrúm stjórnarmanna til að taka þátt í öðrum fyrirtækjarekstri. Það stendur eftir. Það hefur þó gerst í töluverðum mæli að Sementsverksmiðjan hefur tekið þátt í öðrum fyrirtækjarekstri og hefur aldrei verið stöðvuð af ríkinu sem betur fer. Fyrir það ber náttúrlega að þakka ágætum ráðherrum iðnaðarmála fyrr og síðar. Eins og ég sagði áðan hefur Sementsverksmiðjan t.d. verið þátttakandi í Sérsteypunni hf., sem er dótturfyrirtæki henanr og hefur komið fram með mjög merkar nýjungar sem tekið hefur verið eftir bæði hérlendis og erlendis.
    Virðulegi forseti. Í frv. er kveðið á um réttindi starfsfólks og ég legg sérstaka áherslu á atvinnuöryggi þess og að réttur þess sé tryggður. Í beinu framhaldi af því vil ég geta þess að hæstv. iðnrh. og þingmenn Vesturlands fengu bréf frá starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar sem stór hluti starfsmanna skrifaði undir á vordögum í fyrra þegar þetta mál átti að vera til endanlegrar afgreiðslu. Þar mótmæla starfsmenn Sementsverksmiðjunnar þessari breytingu vegna hræðslu við að selja eigi þetta ágæta fyrirtæki. Eins og ég segi skrifuðu tugir manna undir mótmælaskjal. Starfsmenn verksmiðjunnar óttast mjög um hag sinn og framtíð fyrirtækisins, segir í bréfinu til þingmanna og hæstv. ráðherra.
    Mér finnst rétt að geta þess að lokum að fyrirtækjum sem eru í samkeppni við önnur fyrirtæki er sjálfsagt og rétt að breyta í hlutafélög og selja þau. Það er alveg sjálfsagt. Það kemur einmitt fram í grg. með frv. hvernig hefur verið farið með hlutafé Gutenberg og sölu þess. Mér finnst ekki hægt að tala um

prentsmiðjuna Gutenberg í sama orði og Sementsverksmiðju ríkisins vegna þess að það eru margar prentsmiðjur í landinu en, ég tek enn og aftur fram, aðeins ein sementsverksmiðja.
    Það er von mín að það verði ekki gerðar ástæðulausar breytingar breytinganna vegna. Ég sé ekki almennilega kosti einkavæðingar þegar Sementsverksmiðjan er annars vegar. Ég sé það ekki nema mér verði þá bent á eitthvað alveg nýtt hér í þeim málum. Ég sé að formaður iðnn. er þegar farinn að skrifa og ég er ekki frá því að hann muni benda á einhverja kosti sem mér eru huldir á þessu augnabliki. Ég vil geta þess í lokin að bæjarstjórn Akraness hefur margsinnis ályktað um þetta mál og telur eðlilegt að Sementsverksmiðja ríkisins sé rekin sem hlutafélag svo framarlega sem allt hlutafé er í eigu ríkissjóðs. Nú er deginum ljósara að aðalatriðið er að selja þetta fyrirtæki og þar af leiðandi er því miður ekki hægt að samþykkja þetta frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.