Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 14:47:42 (2115)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins hefur, eins og fram hefur komið, áður sést í þingsölum. Það var til ítarlegrar umræðu í hv. iðnn. á síðasta þingi og er eitt þeirra frumvarpa sem ríkisstjórnin ætlar að koma í gegnum þingið og fjalla um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti einkavæðingu ríkisfyrirtækja, síður en svo, og finnst hún að mörgu leyti koma vel til greina ef þau skilyrði eru til staðar að samkeppni ríki í greininni eða hægt er að koma við samkeppni og tryggja að ekki verði um einokun og hringamyndun að ræða.
    Hins vegar eru mínar athugasemdir við þetta frv. fyrr og nú þau ákvæði 4. gr. frv. sem snúa að starfsmönnum þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Í sjálfu sér snertir 4. gr. frv., yrði það að lögum, sárafáa starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins því eftir því sem ég best veit er líklega enginn starfsmaður þar í dag sem þetta ákvæði á við um. Hins vegar er það fordæmi sem verið er að skapa með frv. hættulegt hvað varðar önnur ríkisfyrirtæki sem frumvörp eiga eftir að birtast um og breyta á í einkafyrirtæki. Gangi þetta fram með þessum hætti er ég hræddur um að slíkt verði notað sem fordæmi.
    Sá hópur sem einkavæðing ríkisfyrirtækja snertir langmest er auðvitað starfsmenn viðkomandi fyrirtækja. Opinberir starfsmenn hafa þurft að búa við lægri laun en almennt hefur gerst á hinum almenna vinnumarkaði og það fyrir sambærileg störf. Þessi launamunur hefur í gegnum tíðina verið réttlættur með

tvennum hætti. Í fyrsta lagi að lífeyrisréttindi opinberra starfmanna væru miklu tryggari en hjá öðrum hópum og hitt að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frá árinu 1954 tryggi starfsmönnum, sem þessi lög ná til, sérstök vildarkjör. Þar vegur náttúrlega langþyngst biðlaunarétturinn svonefndi.
    Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. áðan í tengslum við kjarasamninga, að ekki verði hróflað við þeim réttindum sem ríkisstarfsmenn hafa í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frá árinu 1954. Undir þetta atriði var ritað í síðustu kjarasamningum. Í 14. gr. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er gert ráð fyrir því að réttindi til launa, sé mönnum sagt upp, séu trygg verði staða þeirra lögð niður. Í greininni er gert ráð fyrir að ríkisstarfsmaður eigi rétt á föstum launum í sex mánuði hafi hann verið í þjónustu ríkisins skemur en fimmtán ár en í tólf mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur hjá ríkinu en fimmtán ár enda hafi hann þá ekki hafnað sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.
    Hvað þýðir það að vera boðið sambærilegt starf eins og gert er ráð fyrir samkvæmt 4. gr.? Það er verið að hrófla við þessum réttindum og þeim breytingum er beint að ákveðnum hópi starfsmanna sem reyndar eru í tilfelli Sementsverksmiðjunnar sárafáir eða jafnvel enginn. Varðandi Síldarverksmiðjur ríkisins, sem frv. sást hér um í fyrra og er einnig núna komið inn í þingið, þá er gert ráð fyrir þessum sömu breytingum. Það er í 7. gr. Það er gert ráð fyrir að stafsmönnum fyrirtækjanna verði boðið sambærilegt starf hjá hinu nýja félagi. Því skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki eiga við um þá starfsmenn. Með þessu er í raun verið að svipta þennan tiltekna hóp starfsmanna þeim réttindum sem biðlaunin kveða á um að skuli vera, þ.e. þiggi starfsmennirnir hið nýja starf hjá hinu nýja fyrirtæki, gangi þar frá ráðningarsamningum að fáum dögum, vikum eða mánuðum liðnum þá er einfaldlega hægt að segja þessum starfsmönnum öllum upp. Þeir geta þá ekki sótt sinn rétt á grundvelli þeirra laga sem þeir eru með nýjum ráðningarsamningi búnir að afsala sér réttinum til. Tilgangur löggjafans í upphafi með lögunum um biðlaun þegar staða er lögð niður var að greiða skaðabætur fyrir þá röskun á öryggi sem felst í því að missa starf hjá ríkinu. Með því að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag er ljóst að starfsmennirnir njóta ekki lengur lögkjara sem opinberir starfsmenn og hafa því misst rétt sinn til biðlauna sem einmitt hefur verið hluti af þeim kjarabótum sem talið er að opinberir starfsmenn hafi notið fram yfir aðra á hinum almenna vinnumarkaði og þar af leiðandi þurft að sætta sig við lægri og lakari kjör.
    Af hálfu ríkisstjórnarinnar --- það kom kannski ekki fram hjá hæstv. utanrrh. áðan þegar hann mælti fyrir þessu máli --- þá hefur verið reynt að halda því fram að ríkisstarfsmenn sem fara aftur að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi eftir breytinguna og eiga að njóta biðlaunaréttarins þiggi tvöföld laun. Þarna er ríkisstjórnin auðvitað að rugla saman tveimur óskyldum hlutum. Annars vegar launagreiðslunum og hins vegar þessum lögmætu skaðabótum sem gert er ráð fyrir að ríkisstarfsmenn eigi sé staða þeirra lögð niður hjá ríkinu þrátt fyrir að þeim sé boðið starf í hinu nýja hlutafélagi. Það er því lágkúrulegt af hálfu þeirra sem reyna að rökstyðja sinn málflutning með því að um tvöfalda launagreiðslu verði að ræða ráði menn sig aftur hjá hinu nýja fyrirtæki og njóti biðlaunanna og það sé óeðlilegt að greiða slíkt. Í gegnum tíðina hafa opinberir starfsmenn þurft að sætta sig við lakari kjör af því að þeirra réttur hefur átt að vera tryggður í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna vegna biðlaunanna og vegna lífeyrisréttindanna. Það er því náttúrlega lákúrulegur málflutningur að halda slíku fram.
    Það sem er þó langalvarlegast í þessu og alvarlegasta gjörðin af hálfu ríkisstjórnarinnar er að ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið þrátt fyrir að það sé álit tveggja virtra lögfræðinga, þau álit liggja fyrir bæði í iðnn. og í sjútvn. um samsvarandi ákvæði í frv. um Síldarverksmiðju ríkisins, að þessi svipting á biðlaunaréttinum þýði í raun brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar. Samt kemur ríkisstjórnin enn með málið óbreytt inn í þingið. Hv. formaður sjútvn. hélt ágætan fund á síðasta þingi með iðnn. og sjútvn. þar sem þessir lögfræðingar voru kallaðir til. Gestur Jónsson, sem hafði lagt álit sitt fyrir iðnn. og sjútvn., kemst ótvírætt að þeirri niðurstöðu að þetta ákvæði í 4. gr. frv., sem er óbreytt frá því sem það var í frv. sem lá fyrir þinginu í fyrra og í 7. gr. frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins, brjóti í báta við 67. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessari sömu niðurstöðu kemst einnig Hróbjartur Jónatansson lögfræðingur sem skrifar sitt álit í nafni Almennu málflutningsskrifstofunnar hf. Báðir þessir aðilar telja að þetta sé skýlaust bort á stjórnarskránni. Samt ætlar ríkisstjórnin að keyra þetta fram og kemur með frv. óbreytt inn í þingið. Sjálfsagt ætlar hæstv. utanrrh. að eggja stjórnarliðið til þess að samþykkja frv., þrátt fyrir að það sé brot á stjórnarskránni eða líkur séu á því að það sé brot á stjórnarskránni, með því að tala um að menn séu bara heybrækur þori þeir ekki að brjóta stjórnarskrána.