Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 15:21:57 (2117)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér ganga hálfgerðar vofur aftur verður að segjast. Þetta mun vera í sjötta sinn sem þetta frv. fer í gegnum sali Alþingis. ( ÖS: Er það Steingrímur Jóhann?) Ég var að tala um frv., hv. 17. þm. Reykv. Þetta mun vera í sjötta sinn sem frv. er endurflutt.
    Hér er verið að ræða um að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Þótt það standi hvergi að það eigi að selja það hljótum við að taka það sem markmið sem stendur í sáttmála ríkisstjórnarinnar, svokallaðri Hvítbók. Það hefur komið hér fram að það getur náttúrlega verið ágætt að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, þ.e. ef þau eru þannig vaxin eða að starfsemi þeirra hafi eðlilega samkeppnisaðstöðu, þau hafi frjálsari hendur með ákvarðanatöku um að breyta starfseminni og fara út í aðra starfsemi. Þetta tel ég og margir fleiri að gildi sérstaklega ef þau eru í samkeppni við aðra. Þá er komið að kjarna þessa máls. Þetta fyrirtæki er ekki í samkeppni við aðra og það er ekkert útlit fyrir að það verði það á næstu árum. Þessi starfsemi er nú einu sinni þannig að ekki er útlit fyrir það að á okkar markaði verði annað sams konar fyrirtæki sett á laggirnar.
    Ef við skoðum hvernig hefur til tekist í sambandi við það að selja fyrirtæki hér á Íslandi, förum ekki svo langt að skoða þetta í Bretlandi eða Bandaríkjunum heldur skoðum hvernig hefur gengið þegar einokunarfyrirtæki hafa verið seld á Íslandi, þá er auðvitað nærtækast að taka dæmi sem margir muna örugglega eftir. Það er Birfreiðaeftirlit ríkisins. Birfreiðaeftirlit ríkisins hafði hér einokunaraðstöðu. Það fyrtæki var selt. Hvernig hefur reynslan verið af því? Hún hefur að flestra dómi held ég ef ekki allra verið sú að það fyrirtæki hefur nýtt sér þá einokunaraðstöðu sem það hefur á markaðnum. Það hækkaði sína gjaldskrá margfalt og það virtist ekki koma neinum til góða að selja það fyrirtæki og einkavæða það nema þeim sem fengu það fyrir lítið og gátu síðan makað krókinn í skjóli þess að hafa einokun.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að skipun eða kjör fulltrúa í stjórn fari fram með sama hætti og tíðkast hjá hlutafélögum. Þar er í raun og veru verið að herða einokun í þessu fyrirtæki vegna þess að í 10. gr. segir: ,,Iðnrh. fer með eignarhluta ríkisins í félaginu.`` Það þýðir auðvitað að iðnrh. er einn um að skipa stjórn fyrirtækisins.
    Ég tel því að það áform að ætla að breyta þessu atvinnufyrirtæki í hlutafélag með það að markmiði að það sé eitthvað hagstæðara fyrir fyrirtækið eða hagstæðara fyrir neytendur standist engan veginn. Reynslan sýnir okkur að það gerist ekki þegar fyrirtæki hafa einokun og jafnframt kemur það fram í þessum tveimur greinum sem ég nefndi að stjórnin er ekki lengur kjörin af Alþingi heldur skipuð af iðnrh. Ég man ekki betur en að í umræðum á síðasta þingi, þegar rætt var um frv., hafi jafnvel iðnrh. viðurkennt að ekki hafi tekist nógu vel til í sambandi við sölu Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það bendir það til þess að a.m.k. stjórnarliðar og þeir sem um þetta hafa fjallað séu ekki allt of vissir um að þetta sé gott mál þar sem það hefur aldrei komist í gegnum þingið. Ég vænti þess að svo fari einnig í þetta sinn, að ekki verði lengra haldið en kynna frv. hér. Það virðist vera orðið hálfgert trúaratriði hjá hæstv. iðnrh. að koma hér fram með frv. sem hann er búinn að leggja fram, jafnvel þótt hann viti að ekki sé hljómgrunnur fyrir þeim, ekki heldur innan hans eigin raða.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. Ég tel að svo margir séu búnir að benda á ýmsa annmarka í því, sérstaklega í sambandi við starfsmenn og eins það sem ég hef verið að rekja um einokunaraðstöðu fyrirtækisins. Ég tel rétt að vísa frv. frá á þeim forsendum að það er á engan hátt til bóta í þessu þjóðfélagi að frv. verði að lögum.