Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 15:28:42 (2118)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en hún hefur verið þarfleg að því leyti til að menn eru að ræða grundvallaratriði í stefnu ríkisstjórnarinnar sem er það hvort rétt sé að einkavæða fyrirtæki eða taka skrefið sem á undan er, að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og síðan e.t.v. að taka næsta skref og selja þau. Í þessari umræðu hefur komið fram tvennt sem er nokkuð mikilvægt og merkilegt. Þannig hafa tveir hv. þm. Framsfl. talað og það hefur ekki verið hægt að skilja annað af máli þeirra en að í grundvallaratriðum sé Framsfl. ekki á móti einkavæðingunni. (Gripið fram í.) Bæði hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir og hv. þm. Finnur Ingólfsson hafa talað þannig að þótt á þessu tiltekna máli séu agnúar sem þau felli sig ekki við séu þau almennt ekki á móti því að ríkisfyrirtæki séu gerð að hlutafélögum. Ég skildi líka mál beggja þingmannanna þannig að þau gætu líka fellt sig við það að slík fyrirtæki, hlutafélög í eign ríkisins, væru seld. Ef það er rangt þætti mér vænt um að það kæmi fram vegna þess að ég tel að það sé mikilvægt að afstaðan liggi fyrir.
    Ég skildi jafnframt mál þeirra tveggja hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað þannig að þeir séu í grundvallaratriðum á móti því að breyta ríkisfyrirtækjum yfir í hlutafélög. Ég skildi a.m.k. mál hv. þm. Jóhanns

Ársælssonar þannig. Hins vegar hefur það komið fram hér áður að sá þingmaður Alþb. sem hefur mest vit á rekstri, hefur mest komið nálægt því og hefur dýpsta þekkingu á því, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hefur lýst því yfir í umræðum um skylt mál að vísu að hann sé í grundvallaratriðum ekki á móti því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Þetta finnst mér í sjálfu sér rétt að draga hér fram. Mér sýnist að Kvennalistinn sé hins vegar á móti þessu. Ég hef skilið mál þeirra þannig.
    Varðandi Sementsverksmiðjuna, sem við erum að ræða hér, er það hins vegar svo að það er óskaplega erfitt að festa hönd á þeim rökum sem beitt er gegn þessu tiltekna frv. Ég verð að segja að ég tel þetta frv. gott frv. og tel að breyta eigi Sementsverksmiðjunni í hlutafélag. Einhvern tíma síðar tel ég að það sé í lagi að reyna að selja það. Ég tel að fyrsta skrefið sé að breyta henni fyrst í hlutafélag.
    Það er rétt að í Hvítu bókinni kemur fram að selja eigi Sementsverksmiðjuna. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það verði mjög auðvelt. Ég tel að því miður sé ekkert fjármagn á lausu í landinu til þess að gera slíka hluti. Hins vegar tel ég að sú skylda hvíli á fyrirtækjum og stórfyrirtækjum sem hafa góða eiginfjárstöðu, til að mynda Sementsverksmiðjan, að reyna að taka þátt í því að byggja upp atvinnulífið hér á landi og taka þátt í nýjum fyrirtækjum. Ekki síst þess vegna tel ég nokkuð gott að fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjan séu gerð að hlutafélögum vegna þess að það gerir stjórnun þeirra miklu ábyrgari og sveigjanlegri. Það er auðveldara fyrir þau að eiga frumkvæðið að nýjum fyrirtækjum sem tengjast rekstri þeirra. Auðveldara er fyrir þau að taka slíkar ákvarðanir án þess að þurfa að fara til ríkisvaldsins og biðja um það, auðveldara fyrir þau líka að fá önnur fyrirtæki inn í slíka nýsköpun, auðveldara að draga inn fjármagn. Þetta er mín skoðun. Þess vegna segi ég að það er ekkert á móti því að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag.
    Menn hafa haft það á móti þessu frv. að verð á sementi muni hækka og það er réttmæt athugasemd. Sementsverksmiðjan nýtur fjarlægðarverndar. En hvaða breyting verður við það að taka Sementsverksmiðjuna úr eigu ríkisins í því formi sem hún er núna og gera hana að hlutafélagi þar sem öll hlutabréfin a.m.k. til að byrja með, --- takið eftir, a.m.k. til að byrja með, eru í eigu ríkisins? Hvernig er verðlagning á sementi í dag? Hún er þannig í raun og veru eftir því sem hæstv. gegnandi iðnrh. hefur sagt að verðlagsyfirvöld en ekki eigendur fulltrúa fyrirtækisins hafa á síðustu árum haft síðasta orðið um verðlagningu á sementi. Með öðrum orðum: það mun ekkert breytast við að Sementsverksmiðjan verður gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins. Er það ekki rétt? Við getum því a.m.k. sagt að þeir sem hér hafa talað ættu á þeim forsendum ekki að geta verið á móti frv.
    Tökum síðar til skoðunar næsta skref sem gæti verið sala á hlutabréfum þar sem hluti bréfanna eða öll yrðu seld. Ég tel að vísu að ekki muni takast að selja öll hlutabréfin, en ef það gerðist, hvað mun þá breytast? Áfram verður Sementsverksmiðjan, eins og hún er í dag, með yfirburðastöðu á markaðnum. Það mundi auðvitað leiða til þess að verðlagsyfirvöld mundu setja það undir enn meiri smásjá og eftirlit. Fyrirtækið yrði eftir sem áður undir smásjá verðlagsyfirvalda. (Gripið fram í.) Með aðstoð góðra þingmanna hefur það dugað. Ég sé þess vegna ekki alveg muninn á þessu.
    Varðandi frv. sem hefur réttilega verið dregið inn í umræðuna, þ.e. frv. um samkeppni og einokun, get ég alveg sagt og hef sagt að það eru ýmsir gallar á því frv. Ég stóð hins vegar í þeirri trú að góð samstaða væri í nefndinni og góð vinna í gangi til þess einmitt að taka á verstu göllunum í því frv. Og ég hygg að alveg sama hvað menn segja um skilgreiningar og hvort skilgreiningu vanti á því hvaða fyrirtæki er markaðsráðandi þá megi það vera léleg skilgreining, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ef Sementsverksmiðjan sem eina verksmiðja sinnar tegundar hér á landi fellur ekki undir hana. Ég verð því að segja að þó að þessi umræða hafi verið málefnaleg finnast mér rökin gegn frv. ekki nógu sterk og ekki nógu grunduð.