Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 15:35:45 (2119)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil leiðrétta það að ég sé í grundvallaratriðum á móti því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Það er ekki rétt lýsing á minni afstöðu. En þegar ég er á þeirri skoðun að breyta megi ríkisfyrirtæki í hlutafélag er ég um leið að segja að mér finnst allt í lagi að selja hlutafé í fyrirtækinu. Það hef ég t.d. sagt um Síldarverksmiðjur ríkisins. Ég tel að því fylgi út af fyrir sig ekkert sérstakt vandamál að hlutafélagaformið sjálft sé tekið upp hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Vandamálið er ekki þar. Vandamálið er að við höfum ríkisstjórn sem er búin að segja að hún ætli að selja fyrirtækið. Og við verðum auðvitað að taka mark á því.
    Hv. þm. spurði áðan: Af hverju eruð þið á móti þessu ef ekkert mun breytast? Það er nákvæmlega svarið sem ég var að gefa áðan. Við getum ekki treyst því að ekkert breytist. Það eru yfirlýsingar um allt annað. Það er gert ráð fyrir því að fyrirtækið verði selt og þar með eru þessar hættur og vandamál fyrir hendi sem menn hafa verið að lýsa hér.
    Það er ekki nóg að halda því fram að einokuninni verði afstýrt með eftirliti. Það mun verða mikil krafa um arð af því fé sem menn koma til með að leggja í þetta fyrirtæki eftir að farið verður að selja hlutabréfin á almennum markaði.