Sementsverksmiðja ríkisins

51. fundur
Miðvikudaginn 11. nóvember 1992, kl. 15:43:46 (2124)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja að þetta hafi að mörgu leyti verið fróðleg og gagnleg umræða og til marks um hvað hv. 17. þm. Reykv. er snjall við að snúa umræðunni í kringum það sem honum sjálfum finnst henta, þ.e. það hvort við stjórnarandstæðingar erum hlynntir því eða ekki að mynduð verði hlutafélög. Hann talar eins og það séu einhverjar gífurlegar fréttir og hæstv. iðnrh. hafi tekist að sannfæra stjórnarandstöðuna um að það megi mynda hlutafélög. Ég hef satt að segja aldrei heyrt aðra eins lofgjörð til hæstv. iðnrh. og mér finnst hann illa fjarri góðu gamni eða kannski frekar grimmu sem formaður þingflokks Alþfl. stendur hér fyrir.
    Málið snýst kannski ekki alveg svona heldur frekar um hitt. Er það þannig að Alþfl. sé á móti félagslegum rekstri af hvaða tagi sem er? Er Alþfl. alltaf sammála því að breyta rekstri ríkisfyrirtækja í hlutafélag? Svarið er nei. Alþfl. hefur beitt sér mjög fast gegn því t.d., eða vissir einstaklingar í honum, að Búnaðarbankinn verði hlutafélag. Með öðrum orðum hafa tilteknir menn í Alþfl., eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vilja meta hlutina eftir aðstæðum hverju sinni. Það er auðvitað nákvæmlega það sem við stjórnarandstæðingar í hvaða flokki sem við erum af þessum þremur stjórnarandstöðuflokkum höfum yfirleitt viljað gera. Menn vilja meta hlutina hverju sinni.

    Í þessu sambandi vil ég nefna það sérstaklega af því að ríkisprentsmiðjan Gutenberg sem var hefur dregist inn í tal manna. Hverjir ætli hafi helst ýtt á það við hæstv. iðnrh. þáv. og reyndar núv. líka að ríkisprentsmiðjan Gutenberg yrði gerð að hlutafélagi? Það voru m.a. þeir sem unnu með honum í ríkisstjórn á þeim tíma og voru ekki endilega í Alþfl. ( ÖS: Þið gerðu hann að einkavæðingarsinna.) Nei, það er ekki svo, hv. þm., að við höfum þurft að beita okkur fast fyrir því að gera hann að einkavæðingarsinna. Hann hafði auðvitað smávegis af þeim bakteríum í sér áður.
    Ég held þess vegna að við eigum ekki að vera að setja hlutina upp á þessu plani. Við þurfum þess ekki. Við eigum að skoða málin málefnalega eins og þau koma fyrir. Auðvitað er það þannig að stundum á það við að fyrirtæki verði gerð að hlutafélögum. Stundum á það við að fyrirtæki séu ríkisfyrirtæki, stundum bæjarfyrirtæki, stundum hvort tveggja og það er enginn endanlegur dómur til í þessu efni um öll fyrirtæki. Það væri auðvitað barnaskapur að halda slíku fram. Það hefur enginn gert í raun og veru nema mér hefur fundist örla á því í Sjálfstfl. og hjá vissum einstaklingum í Alþfl. að þar væru komnir málflytjendur einkavæðingar sem ganga svo langt að segja: Það á að einkavæða allt endilega af því að það er einkavæðing. Það má ekki vera til neinn félagslegur rekstur. Það er þessi manntegund sem ég hef hallað heilagsandahoppara. Þeir hafa tekið trú á tiltekin atriði og í staðinn fyrir að temja sér aðferðir skynseminnar hafa þeir ákveðið að trúa á það að einkavæðing og aftur einkavæðing leysi allan vanda. Það er bara ekki þannig. Stundum leysir hún einhvern vanda og þá notum við hana. Um það eru engar deilur hér. Þeir sem eru að efna til rifrilda um það mál hér eru að óska þess að þingið fari fram eftir sömu forsendum og það gerði kannski fyrir 50 eða 60 árum. Þetta er löngu liðin tíð og löngu liðin deila.
    Vandinn sem við stöndum frammi fyrir hér, virðulegi forseti, varðandi þetta frv. er hins vegar ekki fyrst og fremst grundvallardeilan. Hún er ekki aðalvandinn. Það er alveg ljóst. Það hefur komið fram m.a. hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það er ekki grundvallarvandinn í þessu máli. Grundvallarvandinn í þessu máli er fyrst og fremst starfsmennirnir af því að ekki hafa verið settar reglur um það hvernig á að fara með réttindi starfsmanna þegar fyrirtækjum er breytt úr ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Þarna hefur ríkisstjórnin því miður ekki unnið sína heimavinnu.
    Ég vil segja að ég tel bera vel í veiði að formaður Alþfl. skuli vera sá sem mælir fyrir frv. vegna þess að ég vil koma á framfæri við hann ákveðnum mjög mikilvægum skilaboðum sem eru þau að fjmrh. og iðnrh. áttu auðvitað fyrir mörgum mánuðum að taka upp viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og aðra slíka aðila um hvernig hægt sé að standa að einkavæðingu fyrirtækja burt séð frá því hvernig biðlaunarétti og lífeyrisrétti er komið fyrir. Þetta snertir öll fyrirtæki af þessu tagi sem menn vilja einkavæða. Ég held að þessi vanræksla á heimavinnu sé ástæðan til þess að þetta mál, síldarverksmiðjumálið, staðlaráð Íslands hét það minnir mig í fyrra og fleira af því tagi, hafa strandað af því að menn hafa ekki unnið sína heimavinnu.
    Auðvitað þarf að vera til leið til þess að einkavæða fyrirtæki sem er samstaða um, ekki aðeins pólitísk leið heldur líka samstaða um við viðkomandi stéttarfélög, þ.e. við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Auðvitað verður að vera til slík leið og auðvitað er ekki samið um slíka leið nema í kjarasamningum. Hún verður ekki ákveðin einhliða af ríkisstjórn hver sem hún er. Það er í raun og veru kjarni þessa máls að þessi vinna ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið unnin. Það snertir ekki bara þetta frv. heldur öll önnur frumvörp af þessu tagi.
    Um þetta má lesa sér til í ítarlegum greinargerðum sem hafa verið nefndar af hv. þm. á undan mér í prýðilega greinargóðum ræðum og kannski ekki síst í ræðu hv. 11. þm. Reykv. Þar gat hann um að frv. er í raun og veru ekki afgreiðslutækt eins og það er af tæknilegum og efnislegum ástæðum gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það eru þrjú atriði sem skipta þarna máli.
    Í fyrsta lagi að frv. gerir ráð fyrir því að menn verði fluttir frá ríkinu til hlutafélagsins í sambærileg störf. Það liggja fyrir tveir hæstaréttardómar um að það eru ekki til sambærileg störf hjá einkaaðila miðað við þau störf sem eru hjá ríkinu. Það liggja fyrir tveir hæstaréttadómar um þetta mál þannig að það þarf ekkert að eyða frekari tíma í að skoða það. Þess vegna þurfa menn að eyða tíma í að semja sig út úr þessu ef þeir vilja vera að einkavæða og auðvitað þarf að vera hægt að einkavæða fyrirtæki.
    Annað atriði sem skiptir máli er biðlaunarétturinn. Það þarf að semja um það mál líka. Biðlaunarétturinn snýst ekki um að menn séu á tvöföldu kaupi eins og það er stundum kallað og menn þenja sig mikið út af því. Í lögfræðilegum álitsgerðum sem okkur bárust í iðnn. Alþingis í fyrra segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Biðlaunagreiðslunni verður ekki jafnað til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Greiðslan felur í sér bætur fyrir ýmis sérstök réttindi sem starfsmenn ríkisins njóta umfram aðra launþega sem falla niður þegar staða ríkisstarfsmanns er lögð niður og hann fær ekki sambærilegt starf hjá ríkinu.``
    Þriðja atriðið snertir síðan lífeyrisréttinn alveg sérstaklega og spurninguna um hver á að borga lífeyrisréttinn. Það er mjög athyglisvert hvaða orð Gestur Jónsson lögmaður notar um þessi mál í greinargerð sem okkur barst í iðnn. í fyrra. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi er verið að gera tillögu um að lögfesta reglu sem ætlað er að taka lögbundin og áunnin réttindi af tilteknum hópi einstaklinga og reglan á einmitt að koma til framkvæmda þegar áunnu réttindin eiga að verða virk. Að mínu mati er rétturinn til biðlauna hjá núverandi starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins einstaklingsbundin réttindi þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og þau verða ekki tekin af

þeim án fullra bóta vegna ákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar.`` --- Síðan segir: ,,Ef heimilt væri með lögum að skerða bótalaust slík áunnin réttindi er vandséð að eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar hefði mikið innihald.``
    Síðan segir, sem hæstv. utanrrh. örugglega kannast vel við frá því að við ræddum tiltekna setningu bráðabirgðalaga fyrr á öldinni þegar við vorum báðir aðeins yngri: ,,Á sama hátt telst þessi regla brot á jafnréttisreglunni sem talin er felast í stjórnarskránni, þ.e. það er ætlunin að afnema lögbundin og áunnin réttindi hjá einungis þessum þrönga afmarkaða hópi manna, en sömu lögbundnu réttindin verða áfram virk hjá öllum öðrum starfsmönnum ríkisins. Er hugsanlega ætlunin að Alþingi taki afstöðu til þess hverju sinni með löggjöf hvort og þá hverjir starfsmanna ríkisins fái notið áunninna lögbundna kjara? Slíkt gengur auðvitað ekki.``
    Til hvaða deilu er ég að vitna? Ég er að vitna til deilu þáv. ríkisstjórnar við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, þar sem niðurstaðan var sú að sett voru bráðabirgðalög sem tóku af almenn réttindi en ekki þau réttindi sem takmörkuðust við þennan hluta launamanna af því að það myndi vera brot á jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar og þar af leiðandi ekki lagasetningartækt.
    Þess vegna er það alveg augljóst mál, virðulegi forseti, hvernig sem það er skoðað og hvaða skoðun sem menn hafa á einkavæðingu og Sementsverksmiðjunni og öllu þessu, að frv. eins og það liggur hér fyrir það gengur ekki upp. Það stenst ekki. Ég vil segja það líka að ég tel að þar sé ekki við neinn annan að sakast en ríkisstjórnina í heild og fjmrn. Ég tel t.d ekki hægt að sakast við einstaka embættismenn í iðnrn. eða sjútvrn. sem hafa unnið þessi frv. sem við erum að fjalla um. Þeir hafa verið að vinna sín verk. Þeir sem eiga eftir að vinna sína pólitísku heimavinnu eru í raun og veru fyrst og fremst forsrh. og fjmrh. og utanrrh. sem formaður annars stjórnarflokksins vegna þess að það verður að fara í viðtöl við opinbera starfsmenn um það hvernig þessu á að koma fyrir. Þannig snýr málið. Ég skora á hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því að það verði gert.
    Annað atriði sem ég ætlaði að vekja athygli á er að stjórn Sementsverksmiðju ríkisins hefur gert tillögu um breytingar á þessu frv. sem er ekki hlustað á. Það er satt að segja dálítið sérkennilegt og engin rök eru flutt fyrir því af hverju tillögunni er hafnað.
    Stjórn Sementsverksmiðju ríkisins sendi bréf, dags. 4. febr. 1992, til iðnn. Alþingis þar sem segir m.a.:
    ,,Vísað er til bréfs iðnn. Alþingis, dags. 10. des. 1991, þar sem óskað er eftir umsögn stjórnar verksmiðjunnar á frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins. Erindið var tekið til afgreiðslu á fundi stjórnarinnar 4. þessa mánaðar. Þrír stjórnarmenn geta stutt frv. ef gerð verður breyting á 8. gr. þess og hún verði svohljóðandi:
    Ríkissjóður getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki þriggja fjórðu hluta atkvæða á Alþingi.`` --- Þ.e. það þurfi aukinn meiri hluta.
    Nú getur auðvitað vel verið að staðan sé þannig að ríkisstjórnin og hæstv. iðnrh. telji að þetta sé svo vitlaus samþykkt stjórnar Sementsverksmiðjunnar að það taki því ekki að tala um hana og menn láti sér nægja að láta heyrast í sér hnussið þegar þessi tillaga er á annað borð nefnd. En hún er nú einu sinni niðurstaða verulegs hluta stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins og ég segi alveg eins og er að ég tel að stjórnin og stjórnarmenn eigi það inni hjá ríkisstjórninni að hún svari því af hverju tillögunni er hafnað.
    Ég vil í þriðja lagi, virðulegi forseti, vekja athygli á því að þetta frv. og framlagning þess er ótrúleg frá einu sjónarmiði sérstaklega. Það er að í rauninni er verið að flytja tvö frumvörp en ekki eitt. Iðnrh. flytur eitt frv. en fjmrh. annað því með þessu frv. birtist sem fskj. greinargerð frá fjmrn. sem segir allt annað um nauðsyn breytinga á þessu máli en iðnrn. segir. Fjmrn. mótmælir t.d. sérstaklega 6. og 7. gr. frv., telur þær óþarfar og segir: ,,Óvenjulegt er að lögfesta ákvæði sem þessi og gætu þau verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmæti hlutabréfa í félaginu við sölu þeirra.``
    Í umsögn sem fjmrn. sendi frá sér til iðnn. á síðasta þingi er enn þá skarpar til orða tekið í þessu efni. Fjmrn. gerir sex breytingartillögur við stjfrv. Út af fyrir sig vissum við vel að þetta var sérkennileg ríkisstjórn og brautryðjandi á eiginlega öllum sviðum. Ekki bara það að hún vildi helst selja allt nema einn og einn maður í ríkisstjórnarliðinu sem ekki vill selja Búnaðarbankann. Nú er svo komið að ríkisstjórnin er farin að flytja frv. sem eru ekki studd nema af helmingnum af ríkisstjórninni því Sjálfstfl. sem væntanlega er fjmrn., fjmrh. er þar að minnsta kosti, er með allt annað frv. hérna. Fjmrn. flytur sex breytingartillögur við stjfrv. Það er vissulega nýlunda að einstök ráðuneyti flytji breytingartillögur við stjfrv. Þetta er sniðugt. Það mætti kannski spara ríkisstjórnarfundi, fella þá bara niður og fagráðherrarnir sendi breytingartillögur hér inn á færibandi. Ég veit að hæstv. utanrrh. hefði gaman af því að gera breytingartillögur við sumar vitleysurnar sem hann telur að komi frá hæstv. landb.- og samgrh. Það væri gaman að sjá þær breytingartillögur. En hér gerir einn ráðherrann breytingartillögur við stjfrv.
    Í fyrsta lagi: Hver er fyrsta breytingartillaga fjmrn.? ( Forseti: Ef forseti má trufla ræðu hv. þm. og vekja athygli hans á því að klukkan er núna fjögur. Það er ekki ætlunin að vera lengur á þessum fundi en til fjögur. Hv. þm. er velkomið að fresta ræðu sinni en ef hann gæti lokið henni á fimm mínútum mundi forseti halda þessum fundi áfram um þær mínútur.) Það er best að ég ljúki ræðu minni á fimm mínútum, virðulegi forseti.
    Í fyrsta lagi flytur fjmrn. breytingartillögu varðandi biðlaunaréttinn. Það þurfi að taka fram að hann

falli örugglega niður og ekki nóg að segja það svona loðið heldur þurfi að segja fullum fetum: burt með biðlaunaréttinn. Það er fyrsta breytingartillaga fjmrh.
    Önnur breytingartillagan er sú að á frv. verði gerðar þær breytingar að réttur starfsmanna til veru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins falli niður við formbreytingu fyrirtækisins þannig að það verði tekið fram í lögunum að þeim verði örugglega bannað að vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Í þriðja lagi verði einnig tekið fram í lögunum að orðnar en ógjaldfallnar skuldbindingar vegna lífeyris hvíli á hlutafélaginu og komi sú kvöð til álita við mat á eignum verksmiðjunnar.
    Fjórða breytingartillagan er í umsögn fjmrh. Friðriks Sophussonar, varaformanns Sjálfstfl.: Í 6. gr. er fjallað erum samstarfsnefnd stjórnenda og starfsmanna verksmiðjunnar. Ekki er ljóst hvaða tilgangi þessi grein þjónar öðrum en þeim að takmarka með lögum valdsvið stjórnenda fyrirtækisins.
    Fimmta breytingartillagan: Skv. 7. gr. frv. skal halda árlega tvo samráðsfundi með fulltrúum Akranesskaupstaðar til að ræða sameiginleg hagsmunamál. --- Svo segir fjmrn.: Ef einhver sameiginleg hagsmunamál eru á milli aðila er líklega óþarft að hvetja til samstarfs. Viðkomandi aðilar eru fullfærir um að leita eftir samstarfi sjálfir. Það þarf ekki að setja það í lög.
    Í sjötta lagi er hér ein breytingartillaga sem kannski er mikilvægust. Hún segir: Í 10. gr. segir að iðnrh. skuli fara með eignarhlut ríkisins í nýja félaginu. Samkvæmt auglýsingu nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands skal fjmrh. fara með eignir ríkisins, þar á meðal hlutabréf. Telja verður að rétt sé og skylt að fara eftir þessu almenna ákvæði nema sérstakar aðstæður séu til að fara eftir undantekningarákvæðum auglýsingarinnar.
    Lagt er til --- segir varaformaður Sjálfstfl. --- að greininni verði breytt þannig að fjmrh. verði falið að fara með eignarhluta ríkisins í félaginu en skuli tilnefna í stjórn félagsins að fenginni tillögu iðnrh.
    Með öðrum orðum liggja hér fyrir tvö stjfrv. Það er búið að ræða annað nokkuð ítarlega í dag. En það er augljóst mál að hér er mjög sérkennilega á málum haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er engin samstaða um þetta frv. eins og það liggur fyrir.
    Þó er aðalatriðið hitt, sem ég rakti áðan, að menn hafa vanrækt að vinna sína heimavinnu og tala við hlutaðeigandi stéttarfélög um það hvernig á að einkavæða fyrirtæki. Ef stjórnarliðið hefur áhuga á að einkavæða fyrirtæki, sem getur auðvitað verið réttlætanlegt og eðlilegt, eru það lágmarks --- mér liggur við að segja mannasiðir --- að ræða við viðkomandi stéttarfélög um það hvernig á að fara að því þannig að fólkið sem vinnur í fyrirtækjunum sé ekki svo að segja selt á fæti eins og skynlausar skepnur úti á hinum almenna hlutabréfamarkaði.