Evrópska mannfjöldaráðstefnan 1993

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:33:36 (2127)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mikil fjölgun mannkynsins er eitt stærsta vandamál sem við glímum við á jörðinni. Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar aðrar alþjóðastofnanir hafa beint sjónum að þessum vanda og reynt margt til að draga úr fólksfjölgun án verulegs árangurs. Það er mikilvægt að átta sig á mannfjöldaþróun, hvar hún er mest, hvernig fólki gengur að brauðfæða sig, hvar sjúkdómar herja o.s.frv., en þó ekki síst að fylgjast með flutningum fólks milli landa og heimsálfa. Evrópubúar hafa nokkurn veginn náð tökum á fólksfjölgun í álfunni þótt þar þrjóskist ýmsir við, svo sem kaþólska kirkjan, sem að mínum dómi sýnir mikið ábyrgðarleysi gagnvart þessu vandamáli mannkynsins.
    Þó er mikill þrýstingur á lönd Evrópu frá fólki sem vill fá að flytjast frá fátækt eða örbirgð yfir í velsældina sem það telur vera í Evrópu. Ólöglegur flutningur fólks, þrælahald af ýmsu tagi og flóttamannastraumur er vaxandi vandamál í Evrópu og því veitir þjóðum álfunnar ekki af að fylgjast með því sem gerist innan hennar.
    Dagana 23.--26. mars nk. verður haldin mannfjöldaráðstefna Evrópu í Genf í Sviss sem m.a. er undirbúningur fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannfjölgun og þróun sem haldin verður árið 1994. Ráðstefnan í Genf var kynnt á fundi nefndar þeirrar sem fjallar um málefni flóttamanna, mannfjöldaþróun og lýðfræði hjá Evrópuráðinu, en í þeirri nefnd á ég sæti. Eftir þá kynningu aflaði ég mér gagna um þessa ráðstefnu en þau vöktu hjá mér þær spurningar hvernig að þessum málum hefði verið unnið hér á landi. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.:
  ,,1. Hvernig hefur undirbúningi íslenskra stjórnvalda verið háttað fyrir evrópsku mannfjöldaráðstefnuna sem haldin verður í Genf 23.--26. mars 1993?
    2. Hvernig hyggjast stjórnvöld haga þátttöku Íslendinga í evrópsku mannafjöldaráðstefnunni 1993?``