Evrópska mannfjöldaráðstefnan 1993

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:38:25 (2129)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv forsrh. fyrir svörin. Ég beindi þessari spurningu til hans vegna þess að ég taldi að það væri Hagstofan sem ynni að undirbúningi þessarar ráðstefnu og vissi reyndar að starfsmaður þaðan hafði setið undirbúningsfundi.
    Önnur ástæða fyrir því að ég lagði þessar spurningar fram var sú að á fundinum hjá Evrópuráðinu sem ég nefndi áðan þar sem þessi ráðstefna var kynnt kom fram að þess væri ekki síst óskað að fulltrúar þjóðþinga kæmu á þessa ráðstefnu. Óskað var eftir pólitískum fulltrúum vegna þess að það eru þeir sem taka ýmsar þær ákvarðanir sem valdið geta miklu um fólksfjöldaþróun og hversu miklir fólksflutningar eru leyfðir milli landa. Þess var líka sérstaklega óskað að konur ættu fulltrúa á þessari ráðstefnu, enda er málið þeim mjög skylt, svo sem körlum líka, en þetta kom fram. Konur og þingmenn eru sérstaklega velkomin á þessa ráðstefnu. Ég vil koma þessu á framfæri og tel að hér sé um mjög merka ráðstefnu að ræða. Þó að við Íslendingar eigum ekki við nein teljandi vandamál að stríða í þessum efnum, hvorki hvað varðar fólksfjölgun eða fækkun eða að hingað sé mikill straumur flóttamanna, þá er mjög brýnt að við fylgjumst mjög vel með þessum málum vegna þess að það er mjög mikið að gerast í þessum málefnum. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni er mikill þrýstingur á Evrópulöndin frá öðrum heimsálfum og við þurfum að marka okkur stefnu í þeim málum eins og aðrar þjóðir.