Kaup á Hótel Valhöll

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:46:08 (2132)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir það sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að Þingvallanefnd sem tók við störfum í ágústmánuði sl. hefur ekki fjallað um þetta mál og ekki tekið afstöðu til þess. Þar eru ekki uppi áform um að fjalla sérstaklega um málið alveg á næstunni.
    Varðandi það sem hv. 18. þm. Reykv. nefndi, undirbúning að þjóðhátíðarhaldi á Þingvöllum 1994, vil ég láta það koma fram að Þingvallanefnd hefur ritað forseta Alþingis og hæstv. forsrh. og boðið fram krafta sína við undirbúninginn en einnig látið það álit í ljós að í tæka tíð þurfi að ákveða hvaða hluti hátíðarhaldanna fer fram á Þingvöllum þannig að undirbúningur geti hafist sem fyrst.