Framtíð herstöðvarinnar í Keflavík

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:50:51 (2135)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í júní sl. skipaði ég sérstaka nefnd fulltrúa stjórnarflokkanna og embættismanna undir formennsku Benedikts Gröndals, fyrrv. utanrrh., til að greina og leggja mat á stöðu Íslands við breyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum og til að fjalla sérstaklega um tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og framtíð þess. Nefndin hóf þegar störf. Dagana 10. og 11. sept. átti nefndin viðræður við fulltrúa bandarískra stjórnvalda í Washington. Nefndin skilaði áfangaskýrslu sem lögð var fyrir ríkisstjórn og kynnt í utanrmn. í október sl. Ég hef ákveðið að dreifa þeirri skýrslu nú á borð þingmanna. Ég vísa þess vegna til þessarar áfangaskýrslu sem svari við fsp. hv. þm. Ég legg áherslu á þann þátt í niðurstöðunum að það var sameiginlegt mat fulltrúa beggja ríkisstjórna að þrátt fyrir stórfelldar breytingar í umheiminum hafi grundvallaratriði og landfræðilegar staðreyndir ekki breyst. Að tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna verði áfram grundvallarþáttur í tengslum Atlantshafsríkjanna beggja vegna Atlantshafs.
    Að því er varðar framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugfelli var staðfest af hálfu ríkisstjórnar Bandaríkjanna að staðið verði við þeirra skuldbindingar á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Að engar ráðagerðir væru uppi af hálfu bandarískra stjórnvalda um verulegar breytingar á starfsemi varnarliðsins. Þess skal hins vegar getið að ekki var á dagskrá þessa fundar að ræða um framkvæmdir á vegum varnarliðsins heldur snerust umræðurnar um sameiginlega grundvallar- og öryggishagsmuni og framhald tvíhliða varnarsamstarfs þess. Upplýsingar um stöðu framkvæmdanna hafa hins vegar verið kynntar. Þar er staðan sú að þrátt fyrir samninga um meiri háttar verk til næstu þriggja ára hafa enn ekki fengist fjárveitingar til þess að standa undir kostnaði þannig að þau mál eru enn í biðstöðu.
    Ég vil bæta því við að nefndin sem fjallar um öryggis- og varnarmál hefur nýlega einnig átt viðræður og aflað upplýsinga í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel og hefur einnig átt viðræðufundi með fulltrúum norskra stjórnvalda og fyrirhugaðar eru viðræður einnig við fulltrúa breskra stjórnvalda í London.
    Upphaflega var ráð fyrir því gert að nefndin skilaði lokaskýrslu um störf sín um áramót en í ljósi stjórnarskipta í Washington geri ég ráð fyrir að ég óski eftir að nefndin starfi fram eftir vetri og lokaskýrsla nefndarinnar verði síðan lögð fyrir hv. Alþingi.