Gengismál

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:03:13 (2142)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hvort til greina komi að breyta þeirri myntkörfu sem gengi íslensku krónunnar miðast nú við. Svarið við því er: Já, það kemur til greina en þó ekki fyrr en Alþingi hefur gengið frá nýjum lögum um Seðlabanka Íslands.
    Það lagafrv. var lagt fram til kynningar á seinasta Alþingi og sent út til umsagnar. Nú er verið að vinna úr þeim umsögnum og fyrir dyrum stendur að þetta frv. verði lagt fram aftur. En í því felst að með þeim nýju lögum verður í fyrsta sinn þannig um hnútana búið að Seðlabanki Íslands fái þau stjórntæki að því er varðar stofnun innlends fjármagnsmarkaðar sem mundu duga til þess að gera honum kleift að fylgja eftir virkari stefnu í peninga- og gjaldeyrismálum.
    Svarið við kjarna málsins er því þetta: Það kemur til greina, enda er það í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar frá því á sl. hausti sem gerði ráð fyrir að þetta mál yrði endurskoðað þegar ný lög um Seðlabanka eru komin á lögbókina og Seðlabankinn orðinn að alvöru seðlabanka með nauðsynlegum stjórntækjum í því efni.
    Að því er varðar þessa myntkörfu þá er hún nýleg, eða frá byrjun þessa árs. Hún var beinlínis útbúin með tilliti til vægis hinna ýmsu mynta í utanríkisviðskiptum Íslendinga. Í myntkörfunni eru nú ECU, sem er notað sem samnefnari fyrir myntir Evrópubandalagsins þar á meðal þýska markið og hún vegur 76%, Bandaríkjadalur vegur 18% og japanskt jen vegur 6%. Þetta eru ekki stórvægilegar breytingar frá því sem eldra fyrirkomulag hefði þýtt. Í raun og veru hefði eftir eldri aðferðinni vægi Evrópumynta verið þannig að vægi Evrópumyntar hefði verið 73,8% í stað 76%, Bandaríkjadollars og Kanadadollars hefði verið 18% en vægi japanska jensins 6%.
    Sú ákvörðun sem tekin var á sínum tíma um samsetningu þessarar myntkörfu var tekin með tilliti til sameiginlegrar stefnumörkunar ríkisstjórnar og Seðlabanka í gengismálum frá því í október á sl. ári. Með þeirri stefnumörkun var ákveðið að undirbúa ákveðnari tengingu krónunnar við ECU á árinu 1993 og nota tímann þangað til til þess að skjóta traustari stoðum undir stöðugleika í gengismálum, m.a. með uppbyggingu gjaldeyrismarkaðar og þróun skammtíma peningamarkaðar hér á landi. Þess vegna er ekki tímabært að taka um endanlega ákvörðun að því er varðar breytingu á samsetningu körfunnar fyrr en þessi stjórntæki Seðlabankans eru orðin virk.
    Því er síðan við að bæta að þær aðstæður sem nú eru á gjaldeyrismörkuðum, þ.e. sú tvísýna sem er um myntsamstarf Evrópubandalagsríkjanna og reyndar ríkja utan Evrópubandalagsins, mun óhjákvæmilega hafa áhrif á þá ákvörðun sem fyrir höndum liggur að taka, hvort hún verður tekin eða hvort henni verði frestað. Það verður að segja eins og er að það mál verður í nokkurri óvissu.