Gengismál

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:07:21 (2143)


     Fyrirspyrjandi (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans. Mikilvægi ferðaþjónustu í atvinnulífi okkar Íslendinga hefur aukist mjög á síðustu árum. Það má nefna hér að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á síðasta ári voru um 13 milljarðar á meðan stóriðja færði þjóðinni um 9 milljarða. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra ferðamanna sem koma til landsins koma frá Evrópu. Flestir frá Þýskalandi, Sviss og Frakklandi og verð eru öll gefin út í mynt þessara þjóða. Auk þess hefur útflutningur okkar aukist mjög til Evrópulanda eins og kunnugt er. Því er brýnt að tillit sé tekið til þess við gengisskráningu.