Hvalveiðar

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:08:35 (2144)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Áður en hvalveiðibann tók gildi árið 1986 höfðu a.m.k. 250 manns störf af hvalveiðum og vinnslu á hvalveiðivertíðinni, þ.e. frá júní til september ár hvert. Hér er um að ræða áhafnir hvalveiðibátanna, starfsfólk í hvalstöðinni í Hvalfirði, Flóka hf. á Barðaströnd og starfsmenn frystihúss Hvals hf. í Hafnarfirði. Það þarf ekki að fjölyrða um að hvalveiðar hafa verulega þýðingu fyrir Íslendinga og hvalur var um 2% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar á meðan hvalveiðar voru og hétu.
    Þegar Íslendingar ákváðu að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu á sl. ári tók hæstv. sjútvrh. það fram að úrsögn þýddi ekki endilega að við hæfum hvalveiðar að ný, alla vega ekki á þessu ári sem nú er senn á enda runnið. Hann hét því jafnframt að stofna ný hvalveiðisamtök þjóða við Norður-Atlantshaf en þau samtök eru nú orðin að veruleika. Undir forustu Íslendinga hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi. Þær rannsóknir gefa ótvírætt til kynna að nú þegar er óhætt að hefja veiðar, a.m.k. á hrefnu og langreyði hér við land.
    Áframhaldandi hvalveiðibann og aukin hvalagengd, sem hlýtur að fylgja slíku banni sem hér hefur ríkt, mun leiða til minnkandi afla á komandi árum og hefur raunar eflaust haft áhrif nú þegar. Því er nauðsynlegt fyrir þjóð sem byggir jafnmikið og við á sjávarafla að vísindalegar niðurstöður áhrifa hvalveiðibanns á fiskstofna við Ísland liggi fyrir hið fyrsta.
    Það er löngu ljóst að hvalfriðunarsinnum vex stöðugt fiskur um hrygg og hefur orðið mjög ágengt á íslenskum mörkuðum erlendis hafa þeir gert verulegt rúmrusk og það er augljóst að við verðum, ef við

ætlum að hefja hvalveiðar að nýju, að hefja áróðursstríð. Því spyr ég hæstv. sjútvrh.: Er undirbúningur fyrir áróður okkar Íslendinga á mikilvægi hvalveiða hafinn erlendis?
    Ég veit að slíkur áróður er ekki einfaldur og hann kostar mikla peninga en það er mikilvægt áður en við hefjum hvalveiðar að við undirbúum það mjög vel í löndum þar sem við seljum okkar afurðir.
    Virðulegi forseti. Það er vandséð hvaða ávinning við höfum að úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu nema við ætlum að hefja hvalveiðar að nýju. Því legg ég fram spurningu til hæstv. sjútvrh. á þskj. 150, svohljóðandi: ,,Hvenær hyggst ríkisstjórnin heimila hvalveiðar að nýju?``