Hvalveiðar

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:23:40 (2152)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ræða hv. 18. þm. Reykv. vakti furðu mína um þetta efni. Það er nú einu sinni svo að við höfum með alþjóðahafréttarsáttmálanum skuldbundið okkur til þess að taka ákvarðanir um hvalveiðar í samvinnu við aðrar þjóðir og að því erum við að vinna. En að við eigum að taka tillit til þeirra sjónarmiða að Bandaríkin og bandarísk stjórnvöld geti einhliða tekið ákvarðanir varðandi viðskipti með sjávarafurðir út frá eigin duttlungum um það hvernig eigi að standa að verndun einstakra tegunda í sjónum, eru atriði sem ég hélt að þingmenn á Alþingi Íslendinga ættu ekki og þyrftu ekki að deila um. Það er svo aldeilis fráleitt að við förum að beygja okkur undir slíkt alþjóðalögregluvald Bandaríkjanna, hverju nafni sem forsetar eða varaforsetar þess ríkis nefna sig.
    En við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar í þessu efni með aðild okkar að hafréttarsáttmálanum. Þó að hann hafi ekki enn þá verið staðfestur af nægjanlega mörgum ríkjum höfum við litið svo á að við værum skuldbundnir til þess að vinna eftir þeim meginreglum sem þar eru settar og á þeim grundvelli er unnið og hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls. Það er út af fyrir sig auðvelt að segja að við eigum að hefja hvalveiðar þegar í stað, en við verðum að hyggja að þeim skuldbindingum sem við höfum sjálfir undirgengist og þeim sáttmála sem við höfum lagt mesta áherslu á að í heiðri verði hafður.
    En ég ítreka enn að áfram verður unnið að þessu máli á þessum grundvelli.