Stjórn fiskveiða

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:26:13 (2153)

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 181 til sjútvrh. um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Spurningarnar eru þrjár:
  ,,1. Hvernig miðar þeirri athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða sem mælt er fyrir í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum?
    2. Hvernig er háttað því samráði við sjútvn. Alþingis og hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem fyrir er mælt í lögunum?
    3. Hvenær er þess að vænta að málið verði lagt fyrir Alþingi?``
    Það er ekki að ástæðulausu að þessar spurningar eru bornar fram. Allt frá því að kosningabaráttan stóð yfir fyrir síðustu kosningar hefur þetta mál verið mikið á döfinni og satt að segja hélt ég að þessi endurskoðun yrði komin lengra þegar komið væri fram í nóvember árið 1992 en nú virðist vera. Tíminn er að renna frá okkur. Endurskoðun laganna er miðuð við næstu áramót og það er ekki mjög margt sem við sjáum að hafi gerst.
    Mig langar til þess að minna á umræður sem fóru fram hér utan dagskrár um sjávarútvegsmál 7. okt. 1991. Þá sagði hæstv. sjútvrh. eftir að hafa verið spurður um þessi mál. Ég vil hafa það orðrétt eftir honum, með leyfi forseta:
    ,, . . .  samkvæmt skýrum ákvæðum í þeim lögum og samkvæmt samkomulagi stjórnarflokkanna er ætlunin að endurskoða kerfið á grundvelli laganna og þeirri endurskoðun á samkvæmt lögunum að vera lokið fyrir árslok 1992. Það er eðlilegt að stjórnarflokkarnir hafi þar forustu um, þess vegna var skipuð sérstök nefnd þeirra. Jafnframt hefur verið skipuð nefnd hagsmunaaðila og sjútvn. Alþingis hefur verið skrifað bréf þar sem gerð er grein fyrir því að hún á lögum samkvæmt að vera samráðsaðili í þessu efni. Við gerum ráð fyrir því að samstarfinu við sjútvn. verði hagað með þeim hætti að fulltrúar endurskoðunarnefndarinnar fari á fund sjútvn. eftir því sem hún óskar. Hér er því búið að leggja grunn að öruggri pólitískri forustu um þessa endurskoðun sem hlýtur að hvíla á ríkisstjórnarflokkunum á hverjum tíma og breiðri, víðtækri samstöðu við hagsmunaaðila í sjávarútveginum og alla stjórnmálaflokka á Alþingi. Ég tel að það sé nauðsynlegt að viðhafa slíkt víðtækt samráð og víðtæka samvinnu til þess að treysta sem best samstöðuna um þessa endurskoðun.``
    Sér er nú hvað. (Forseti hringir.) Ég er því miður búinn með tíma minn, en ég vil, með leyfi forseta, ljúka þessu með tveimur til þremur setningum. Í umræðu um rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja --- (Forseti hringir.) virðulegi forseti, þetta tekur enga stund --- sem fór fram 11. maí sagði hæstv. sjútvrh. að þessu undirbúningsstarfi væri um það bil að ljúka og gerði ráð fyrir að tillögur nefndarinnar lægju fyrir í haust þegar Alþingi kæmi saman. Nefndin hafi kynnt sér rekstrarstöðu sjávarútvegsfyrirtækja rækilega og haft forustu um ýmsar athuganir á þessu sviði. Spurningarnar sem ég lagði fram eru skýrar og það verður athyglisvert að heyra hvaða svör hæstv. sjútvrh. gefur.